þriðjudagur, júlí 27, 2004

Ég hef eytt meiri peningum á kaffihúsum í gegnum árin en konan mín getur sætt sig við. Ég hef að vísu alltaf verið frekar vel stæður svo þetta hefur ekki komið að sök, henni finnst hins vegar grátlegt að eyða háum upphæðum á ársgrundvelli í slíkan lífsstíl.

En hvernig þjónustu hef ég fengið fyrir peningana?
Oft er afgreiðslufólkið lipurt og þar sem ég á það til að panta það sama dag eftir dag tekur það að kíma yfir gestinum og spyr hvort ég vilji fá það sama og vanalega. Veitingarnar skila sér hratt og örugglega. Ég er farinn að kannast við hjónin sem reka Café Roma á Rauðarárstíg og Kringlunni og nýja kaffibarinn á Lækjartorgi. Konan er fegurðardís, rétt rúmlega þrítug, maðurinn þögull og traustvekjandi ungskalli af Skaganum. Afar viðkunnanlegt fólk sem kann að reka kaffihús.

En skuggahliðarnar þekki ég líka. Sumarið 2002 borðaði ég á Súfistanum í Máli og menningu sirka 4 sinnum í viku. Ég vann freelance um þetta skeið, við erfið og seinunnin verkefni, þýddi bækur sem ég hafði ekki áhuga á, tók viðtöl við heilbrigðisstarfsfólk og ýmislegt fleira. Þegar ég hafði unnið mér í haginn tók ég til við smásögurnar mínar, allt þar til deadlinin voru farin að ógna mér á ný. Oft var gaman að fara með stílabókina á Súfistann, borða bragðgóðan og fitandi mat og rýna í bókaúrvalið í erlendu deildinni sem þá var ekki búið að breyta í reyfarasjoppu.
En afgreiðslustúlkurnar? Það var í sjálfu sér ekkert upp á þjónustuna að klaga, maturinn skilaði sér á borðið og það var gefið rétt til baka. En þó að ég væri þarna daglegur gestur í heilt sumar, áberandi sem ég er, hávaxinn og þéttvaxinn, myndarlegur og vel klæddur og afar kurteis, þá var alltaf eins og ég væri að koma þarna í fyrsta skipti. Afgreiðslustúlkurnar voru alltaf á svipinn eins og þær hefðu aldrei séð mig áður. Þetta er svona óaðfinnanleg leið til að gefa gjörsamlega skít í viðskiptavininn, án efa algjörlega ómeðvituð og ber vitni um dapran karakter fremur en slaka þjónustulund. - Ég er líka löngu hættur að fara á Súfistann því bókaúrvalið er hvorki fugl né fiskur lengur. Staðurinn heldur hins vegar vinsældum sínum því flestir gestanna glugga í tímarit sem nóg er af ennþá auk þess sem maturinn stendur fyrir sínu.

Fyrir hálfu ári bauð ég rithöfundi sem átti afmæli upp á afmæliskaffi á Sólon Íslandus. Rithöfundurinn hafði ekki borðað kvöldmat og var svangur en klukkan var orðin tíu. Hann gluggaði í matseðilinn og ætlaði að panta sér smárétt en þjónustustúlkan sagði að búið væri að loka eldhúsinu og matseðillinn því ekki í gildi. Við pöntuðum okkur því bara drykki. En stuttu síðar sáum við mann einn fá sér kökusneið og síðan rak ég augun í fjölda rétta í glerhillu undir afgreiðsluborðinu. Ég spurði þjónustustúlkuna hverju þetta sætti og hún svaraði því til að þessa rétti væri hægt að panta. EN HENNI HAFÐI EKKI DOTTIÐ Í HUG AÐ BENDA OKKUR Á ÞAÐ RÉTT ÁÐAN ÞEGAR HÚN SAGÐI AÐ ELDHÚSIÐ VÆRI LOKAÐ! Jesus fucking Christ! Ekki vildi ég hafa svona fólk í vinnu.

7 Comments:

Blogger Audur said...

HEHE, les konan þín þessa síðu?
Mér sýnist að þú veljir staði þar sem þú færð félagsskap? Já ríkur og ekki ríkur, það finnst mér að hver og einn verði að meta. Er það að eiga Billjónir, góða fölskyldu þar sem maður getur leyft sér það sem gefur manni mest. Ég hallast að því seinna. Ég á góða fjölskyldu... til að vera í sama gír og þú þá finnst mér mjög gaman að fara út að borða (finnst ekki gaman að elda, nema þá fyrir veislur) Þá förum við oft bæði stórfjölskyldan + mín 4ra manna fjölskylda og skellum okkur á ýmsa staði t.d. A. Hansen, Víkingarkrána, Ask, Perluna og það er svo gaman að börnin fíla það svo í botn, auðvitað förum við líka oft á Mac´Donalds ÚFF þá bara fyri þau, maturinn er að mínu viti ekki góður.
OG af því þú varst að tala um félagsskapinn, þá vekja mín börn mjög oft athygli á fínni stöðum. Þau eru svo prúð og stillt og fíla þetta alveg í botn og margi þekktir + óþekktir koma að spjalla við okkur.
En hvað klikkaði á hinum staðnum?
Dálítið fyndið hvernig þú talar um sjálfann þig, en mér finnst það allt í lagi, þó að ég myndi ekki gera þaðþ
Þetta er þín síða og ég hef gaman af henni....

9:11 e.h., júlí 27, 2004  
Anonymous Nafnlaus said...

Ertu viss um að það hafi verið "án efa algerlega ómeðvitað" að starfsstúlkurnar fóru ekki að heilsa þér með virktum þetta sumar?
Hanna S. - fyrrum starfsmaður Súfistans.

10:06 e.h., júlí 27, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Það getur sviðið undan gagnrýni og þá er freistandi að svara með dylgjum.

12:28 e.h., júlí 28, 2004  
Anonymous Nafnlaus said...

Gagnrýni? Ég sé ekki betur en þú hafir ekkert uppá þjónustuna að klaga, það sem þú kallar gagnrýni er líklega að við höfum ekki heilsað þér með virktum. Það tek ég ekki nærri mér - og eru þar engar dylgjur. Þú hefðir best að því að láta ekki rigna svona uppí nefið á þér.
Hanna

6:57 e.h., júlí 28, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Well, þó að ég virki góður með mig á netinu þá rignir ekki upp í nefið á mér á almannafæri. Ég kem mjög vinsamlegar fyrir. Það er hins vegar alveg rétt hjá þér að í rauninni var ekkert upp á þjónustuna að klaga og það er frekar afturför bókabúðarinnar sem veldur því að ég fer ekki lengur á Súfistann. Ég átti ekkert að vera að svara þessu kommenti þínu og hafðu það bara gott.

7:01 e.h., júlí 28, 2004  
Blogger Pulla said...

Ég fór einmitt á Hressó um daginn og þar sátum við vinkonurnar í næstum hálftíma án þess að nein þjónustustúlka kæmi. Þær voru hins vegar sífellt á þönum framhjá okkur. Sérstaklega var þeim annt um að taka af tómum borðum þó að mörg borð væru laus. Ég hefði haldið það væri mikilvægara að afgreiða fólk sem situr þarna við tómt borð.

Annars ætti að kenna öllum þjónum grundvallarreglu kaffihúsanna: Horfa í kringum sig. Ótrúlega margir íslenskir þjónar horfa alltaf beint fram eða niður og sjá aldrei gesti. Mér finnst hins vegar alltaf jafn gaman að sjá alvöru fagmenn í þjónustu sem sjá strax þegar mann vantar eitthvað. Verst finnst mér tilhugsunin um að þeir fái kannski sömu laun og allir blindu þjónarnir!

1:38 e.h., júlí 31, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Þakka gott innlegg. Það er frumskilyrði að fá afgreiðslu á kaffihúsinu, ef það gengur ekki er óhætt að dæma það úr leik. Ég er sammála því að það er virkilega gaman að sjá til þjónustufólks sem vinnur af ýtrustu fagmennsku og það er nákvæmlega enginn undirlægjuháttur fólginn í slíkri framgöngu.

7:25 e.h., ágúst 02, 2004  

Skrifa ummæli

<< Home