þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Ég var að reyna að skrifa í gærkvöld en þetta þróaðist út í undarlegan göngutúr um Reykjavík. Á Hlemmi spjallaði ég við konu sem virðist hafa bitið það í sig að ráðist hafi verið inn í landið upp úr 1960, mikið af fólki drepið og menningarverðmæti eyðilögð. Hún sagði að í Vesturbænum hefði verið mikið af húsum alsett vafningsviði og ámáluðum páfagaukum. Þetta hefði allt verið eyðilagt og ný hús reist. Hún hefði jafnframt misst fóstur og eiginmann í innrásinni. Það stefndi reyndar ekki alveg þar sem hún kvaðst fædd 1959 og í upphafi frásagnar hafði innrásin átt sér stað á bernskuárum hennar.

Bíó-Grill á Laugarásvegi er í bland orðið kaffihús. Þarna er seldur grillmatur og leigðar út vídeóspólur en auk þess eru þarna þrjú borð, ótal smáar kaffikönnur eru til sýnis í hillu. Að sjálfsögðu er þetta ekki eitt af betri kaffihúsum bæjarins en óneitanlega hlýtur að vera gaman fyrir hverfisbúana að hafa svona sjoppu. Ef þeim er þá ekki alveg sama.

Það var tíður rigningarúði, logn og hlýindi og einmanaleg grá kvöldbirta í borginni. Ég endaði í veitingasalnum á BSÍ. Þar var Asíubúi að þrífa undir lokun. Ég skynjaði að ég var ekki bara staddur í minni heimaborg heldur er hún líka borg í Evrópu per se.