miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Óþreyjan yfir því að ganga frá bókinni er enn fyrir hendi og kemur í veg fyrir að ég geti haldið áfram að skrifa. Ég er enn með prófarkirnar í höndunum og hef ekki komist til þess að ganga frá þeim. Búið er að hanna kápu að mestu en það er eftir að ganga frá bakhliðinni. Þetta er hins vegar allt í réttum farvegi og því verð ég að vera þolinmóður.

Skrapp á Mokka í hádeginu, settist út í horn þar með próförkina og rýndi eina af lengri sögunum. Ég fer sjaldan á Mokka í seinni tíð og hafði ekki komið þangað í sirka mánuð. Þetta er einn af fáu stöðum í Reykjavík sem hefur ekkert breyst, nákvæmlega ekki neitt. Þegar ég var í M.R. sótti ég staðinn daglega og þá samanstóð gestahópurinn af menntaskólanemum með e.k. lista- og menningarrembing og miðaldra körlum sem voru misjafnlega þekktir listamenn eða algjörlega óþekktir og með mér hulinn starfsvettvang. Frekar lítið af konum yfir menntaskólaaldri. Í dag var samsetningin nákvæmlega eins: 50% kornungt skólafólk, eflaust úr M.R. og fleiri skólum, 50% miðaldra karlar. Og ég orðinn einn af miðaldra körlunum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home