fimmtudagur, október 07, 2004

Ég uppgötvaði á mér konsvervatíva og smáborgaralega hlið í gærkvöld. Kannski segja sumir að slíkt ætti ekki að koma á óvart þegar ég á í hlut, en málið er að þetta snerist um kynferðismál þar sem ég hef alltaf talist í frjálslyndari kantinum. Ég hef t.d. aldrei gefið tilefni til að vera sakaður um hómófóbíu, viðurkenni neyslu á léttu klámi og hef ekki fordóma gagnvart flestri kynlífshegðun sem hefur hvorki með börn né málleysingja að gera.

Í gærkvöld var þátturinn Fólk með Sirrý á dagskrá Stöðvar 2. Þar var viðtal við lesbíu sem hafði komið úr skápnum eftir langt hjónaband og barneignir. Og hvernig hafði þetta borið til? Hafði manneskjan áratugum saman lifað í hræðilegum blekkingarleik og reynt að bæla niður raunverulegar tilfinningar sínar? Hafði hana skort kjark á gelgjuskeiðinu til að gangast við tilfinningum sínum vegna fordóma í umhverfinu og leiðst út í hefðbundið fjölskyldumynstur á skjön við raunverulegar tilfinningar sínar? Nei. Hún og maðurinn hennar höfðu sökkt sér niður í kynóra, legið í klámmyndum og síðan byrjað að stunda makaskipti og hópkynlíf. Í þessari djúpköfun hjónanna í myrkviði lostans uppgötvaði konan að hún væri í raun lesbía og að í örmum annarrar konu væri hún í rauninni hún sjálf.

Þessu fylgdi um síðir skilnaður sem manninum og börnunum tókst að kyngja. Börnin voru stödd í þættinum, ungt og huggulegt fólk, sem Sirrý tók stutt viðtal við. Þau virtust hafa sætt sig bærilega við þróun mála. Síðan klappaði allur salurinn fyrir lesbíunni frelsuðu og Sirrý færði henni sápukassa og eitthvert dót frá þáttarsponsor. - Allir virtust vera innilega glaðir, eins og þeir hefðu orðið vitni að sögu sem endar vel. Mín líðan var hins vegar blanda af tómleika og skelfingu. Ég leit á konuna mína sem ég veit að er ekki lesbía en samt, en samt, er ekkert öruggt í þessu lífi? Nei, hún Erla mín verður mín áfram.

En. Ég hef t.d. ekkert á móti því að gift fólk stundi makaskipti. Ég gæti ekki gert það sjálfur, það myndi enda með ósköpum. En fantasían er skemmtileg. Hins vegar eru hlutir eins og makaskipti og hópsex ekki viðurkennd kynlífshegðun almennt, og þáttur Sirríar, sem er ágætur fyrir sitt leyti, er það penn og borgaralegur, að hann myndi yfirleitt ekki fjalla um slíkt kynlíf á jákvæðan hátt. - En þegar málið snýst um homma og lesbíur þá virðist einhvern veginn allt vera leyfilegt. Skyndilega var frásögn af makaskiptum og því sem einhvern tíma hefði verið kallað saurlifnaður hjóna, orðið eitthvað jákvætt og fagurt, af því það stuðlaði að því að kona varð lesbía. Og börnin. Einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að þetta fólk hefði fengið virkilega slæma meðferð, það hefði verið farið illa með það án þess það gæti nokkuð við því gert.

Og fjandinn hafi það: Það er alltaf sorglegt og skelfilegt þegar fjölskyldu er rústað, það er ekki tilefni til að gleðjast yfir því og klappa yfir því í sjónvarpsþætti.

3 Comments:

Blogger Ljúfa said...

Einhvers staðar heyrði ég að Sirrý og hennar ektamaki eigi og reki símakynlífsþjónustu en ég sel það ekki dýrara en ég keypti...

2:58 f.h., október 08, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Það er orðum aukið. Eiginmaður hennar átti um tíma hlut í fyrirtæki sem sérhæfði sig í símtölvuþjónustu, þ.e. ýmsum símaþjónustu með sjálfvirkri svörun. Meðal efnis voru skjáleikir í sjónvarpi, símaleikir, upplýsingasímar og síðan einhverjar stefnumótalínur. Út af stefnumótalínunum spratt umræðan um að maðurinn væri þessi ægilegi klámkóngur. En þessar línur eru bara sjálfvirk forrit, eins konar einkamal.is í síma.

11:50 f.h., október 08, 2004  
Blogger Ljúfa said...

Eins gott að trúa ekki öllu sem maður heyrir.

1:18 f.h., október 09, 2004  

Skrifa ummæli

<< Home