fimmtudagur, september 22, 2005

Ég man það ákaflega skýrt þegar skipt var yfir í hægri umferð vorið 1968. Ég var á sjötta ári. Ég man að pabbi og mamma töluðu um þetta við mig og sín á milli og ég horfði á hvítu gluggakistuna við borðstofugluggann á meðan. KR varð Íslandsmeistari þetta sumar en það fór alveg framhjá mér. Ég byrjaði ekki að fylgjast með fótboltanum fyrr en 1971. Kjartan byrjar að fylgjast með KR þegar liðið er í lægð eftir nýlega titla. Ég vona að sú lægð vari skemur en sú sem ég upplifði.

Ég man síðan að sumarið 1969, einn sólríkan dag, þegar við höfðum verið að leika okkur úti og komum inn, líklega í hádeginu, sagði mamma okkur að menn hefðu stigið á tunglið um nóttina.