sunnudagur, janúar 21, 2007

Dagbók frá ferðinni

11. – 12. janúar

Kom vansvefta til Frankfurt í gær og tók lestina þaðan til Heidelberg. Ferðin gekk snurðulaust en ég var þreyttur enda hafði ég þurft að vakna kl. 4 um nóttina. Ég sofnaði klukkan 8 á hótelherberginu og svaf með hléum til klukkan 9 í morgun, samanlagt áreiðanlega yfir 10 klukkustundir.

Þó að hótelið heiti Hotel Central og sé rétthjá aðallestarstöðinni þá er hinn eiginlegi miðbær með miðaldabyggingum upp í skógivaxnar hlíðar og frægum kastala í töluverðri fjarlægð og hef ég ekki enn komið í verk að fara þangað. Þetta er undarlegt því ég minnist þess að hafa gengið upp í þessar hlíðar árið 2001 þegar ég var hér einn eftirmiðdag, líklega hefur það verið mjög langur göngutúr. Svæðið hér í kring er ekkert allt of líflegt en bílaumferð gríðarleg. Þó er eitthvað af góðum kaffihúsum. Mér hefur gefist betur að skrifa á kaffihúsum og í hótellobbíinu í dag en á herberginu því þegar ég reyndi að setjast þar til verks í eftirmiðdaginn hvolfdist þreytan yfir mig þrátt fyrir nætursvefninn langa. Það lítur hins vegar vel út með kvöldið og ég er með vænan skammt í vasabókinni sem þarf að slá inn á fartölvuna og betrumbæta í leiðinni. Ég geri mér vonir um að klára handritið til enda um helgina og geta síðan byrjað að endurskrifa það í næstu viku.

Eins og vanalega í Þýskalandi er fólkið kurteist og þurrt á manninn. Örfáar athugasemdir eða stutt samtöl lífga hins vegar upp á andann í einverunni. Í kvöld mun ég líklega skrifa töluvert mikið og í fyrramálið bregð ég mér í miðbæinn. Kaupi kannski föt, vonandi eitthvað fallegt handa Erlu. Ég nenni samt ekki í kastalann strax, ætla að vera búinn að skrifa miklu meira þegar ég læt það eftir mér.

Ég er að lesa smásögur eftir Tékkann Ivan Klíma, bók sem ég keypti í Máli og menningu og heitir Lovers for a Day. Hún er mjög góð. Einnig keypti ég þýska verðlaunaskáldsögu á flugvellinum í Frankfurt, eftir konu að nafni Katharina Hacker, Die Habenichtse. Hún er flókin og dálítið erfið aflestrar. Ég kíki í blöð og tímarit og skil mismikið, helst að ég staldri við stuttar glæpafréttir en ég á yfirleitt erfitt með að fá botn í þýsku pólitíkina, a.m.k. ef ég les um hana á þýsku. Þeir eru líka eitthvað að skrifa um HM í handbolta sem hefst hér eftir nokkra daga en fjalla bara um þýska landsliðið sem er hrjáð af meiðslum.

Veðrið er gott, hitinn um 10 stig en dálítil gola.

Þetta lítur annars vel út og byrjunin lofar góðu.


13. janúar

Gamli miðbærinn í Heidelberg er áreiðanlega fallegasta borgarsvæði sem ég hef séð í Þýskalandi og jafnast á við staði eins og Prag eða París. Verslunargatan Hauptstrasse liggur í gegnum allt svæðið en fallegar, þröngar hliðargötur liggja út frá henni. Hellulögð stræti, gullfalleg steinhús í miðaldastíl, fljótið Neckar rennur í gegnum bæinn og byggðin nær upp í skógivaxnar fjallshlíðar þar sem kastalinn eða höllin, Heilderberger Schloss, gnæfir yfir. Glæpasagnahöfundur sæti örugglega þar við skriftir en grámuggulegur raunsæishöfundur eins og ég heldur til í grennd við aðallestarstöðina, í um 10 mínútna göngufæri frá þessu heillandi svæði. Auk verslana er mikið af flottum kaffihúsum þarna.
Ég keypti mér dökkblá flauelsjakkaföt í C&A. Það þarf einfeldning eins og mig til að viðurkenna á góðæristímum að hann hafi keypt sér föt í C&A en verðið er svo fáránlega lágt þarna að ég varð að taka eitthvað með mér úr búðinni. Ég keypt síðan eitthvað á Erlu í lítilli tískubúð í nágrenninu.

Mér gekk vel að skrifa í gærkvöld og í dag og er á áætlun.

Hitinn síðdegis í dag var 14-15 stig.


14. janúar

Svipaður labbitúr í dag og miklar skriftir. Það er sunnudagur og búðir eru lokaðar. Það er eini munurinn sem ég skynja á sunnudegi og öðrum dögum hér. Maður missir tímaskynið.

12 stiga hiti og sól.

Þetta er auðvitað einmanalegt líf, maður finnur það strax eftir örfáa daga og óneitanlega hugsa ég um allt sem gaman væri að gera hérna með Erlu og jafnvel krökkunum líka. Litlu skiptir þó að fólkið hér verði sífellt vingjarnlegra, þetta fólk kemur mér ekki við. Það eina sem gildir eru árangursríkar skriftir og allt stefnir í það.

Aðeins rúmlega 12 prósent Þjóðverja vita að HM í handbolta verður haldin í Þýskalandi. Handbolti er fyrir Íslendinga og fólk í Gummersbach.


15. janúar

Þetta stefnir í árangursríku Þýskalandsferðina til þessa. Aðstæðurnar eru ekki ástæðan, þær eru alltaf hinar sömu. Það sem ræður mestu er staðan á verkinu þegar ég kom hingað.

Annars dragnast ég um haltur því ég kom hingað í of nýjum skóm og er með blóðug sár fyrir ofan hælana á báðum fótum.

Ég er þreyttur og einmana en segi við sjálfan mig: Var það ekki þetta sem þig dreymdi um? Rithöfundur á erlendri grundu að klára skáldsöguna sína og með öruggan útgefanda í þokkabót.

Mylsna frá Heidelberg

...og það reyndist vera J.R. sem skyndilega stóð gleiðbrosandi í dyrunum með hvítan kúrekahatt á höfðinu. Hún skellti hurðinni í fésið á honum en vaknaði við skellinn því hann var raunverulegur: hún hafði fleygt bókinni hans Árna í gólfið. Hafði vaknað um miðja nótt, náð í bókina og farið að lesa hana rétt eina ferðina en sofnað með hana í höndunum. Loftljósið logaði ennþá og lýsti upp rökkrið sem þykk gluggatjöldin kölluðu fram því fyrir morguninn fyrir utan var albjartur. Hún ýtti bókinni undir rúmið. Þar var líka bleikur penni og usb-minnislykill, hún hafði séð það þegar hún leit undir rúmið í gærkvöld og líka að það var aftur komið mikið ryk þó að hún hefði þrifið fyrir stuttu. Á minnislyklinum var m.a. uppkast að ritgerð sem hún hafði skilað í byrjun mánaðarins. Svona safnaði líf manns allt ryki um leið og stundin var liðin hjá.

Ég virðist hafa verið kominn miklu nær því að klára bókina en ég hélt. Ég frumskrifaði síðasta hlutann hér úti, en hann er aðeins rúmlega 5000 orð, og gekk það mjög vel; heilmikið kikk. Síðan byrjaði ég að endurskrifa í dag. Fyrsti hlutinn er miklu nær því að vera fullkláraður en ég hélt, það liggur við að mér hundleiðist að endurskrifa hann, meira og minna pússaður texti. – Við sjáum á morgunn hvernig miðhlutinn hefur gengið.


16. janúar

Það er Netcafé á lestarstöðinni og hef ég farið þangað nær daglega. Helstu fréttir dagsins eru þær að í Byrginu virðist hafa verið rekin hálfgerð glæpastarfsemi árum saman og tugum milljóna stolið. Töluverðar umræður um væntanlega “viðreisn”, mér líst ágætlega á það stjórnarmynstur. Bloggúrvalið heima hefur aukist mikið síðustu misserin. Hérna í Þýskalandi hef ég alltaf tékkað á sömu síðunum: Egill Helga, Guðmundur Magnússon, EÖN, Steingrímur Sævarr, Pétur Gunnarsson, Páll Vilhjálmsson. Síðan smá Björn Bjarna, Andríki, Rassabora (hún er nú bara gamall ávani). Ég er ekkert viss um að ég læsi sjálfan mig ef ég væri einhver annar maður í útlöndum.

Kláraði að endurskrifa fyrsta hlutann í gær og var það frekar auðvelt. Annar hluti er lengri og ég tek mér a.m.k. tvo daga í hann. Þriðji hlutinn er stystur og eins og fyrr sagði þá samdi ég hann að mestu leyti hér. Líklega kemst ég í hann áður en ég fer heim. Ef allt gengur upp tekur við dálítið hlé frá skriftum þegar heim kemur og handritið fer í hendur lesara. Vel má vera að ég láti Skruddumenn bara fá það strax til að heyra þeirra álit. Ef þetta er ekki nógu gott þá er a.m.k. nægur tími til að lagfæra. En ef þetta er búið, ja því þá ekki að taka bara langt skriftarhlé og verða skemmtilegri eiginmaður? Það væri hægt að gera ýmislegt við tímann sem fer í skriftir. Ætli ég byrji síðan ekki bara að skrifa smásögur í sumar.

Það hefur aðeins kólnað hérna, hitinn var um 7 stig í dag.


17. janúar

Mér líður óskaplega vel í Heidelberg í dag, allur einmanaleiki og drungi horfinn úr mér. Fyrir þessu kunna að vera nokkrar ástæður: Mér gekk fantavel að skrifa í morgun, Erla hefur verið dugleg að hringja, veðrið er dálítið Reykjavíkurlegt núna, súld og 10 stiga hiti; ég er farinn að venjast borginni, skórnir meiða mig ekki eins mikið.

Ég mæli með Café Rossi við Bismarck Platz. Á eftir er hægt að ganga upp Hauptstrasse inn í gamla miðbæinn, skoða sig um eða versla. Eða gera þetta í öfugri röð. Eitt af því góða við Þýskaland er hvað veitingastaðirnir eru hreinir og þjónustan góð. Enginn þarf að kvíða því að fara á klósettið hérna.

Gott gengi við handritið opnar ýmsa möguleika því ég næ markmiðum mínum auðveldlega áður en ég fer heim. Á ég að skreppa til Mannheim eða Karlsruhe? Annars er Mannheim óttalega þunglyndislegur staður (en samt vinalegur) og Erla spyr mig hvað í ósköpunum ég hafi að gera þangað. En mig langar ekkert upp í þessa höll hérna í hlíðinni. Ég myndi fara með Erlu. En núna er ég enginn túristi. Annars verður HM í handbolta m.a. spiluð í Mannheim og það er meira skrifað um mótið í héraðsblaðinu Rhein-Neckar Zeitung en stórblöðunum. Spila Íslendingar annars ekki í Austur-Þýskalandi?


18. janúar

Óveður hefur gengið yfir Þýskaland í dag en hér er bara smáblástur, svona dæmigert Reykjavíkurveður nema eitthvað hlýrra.
Ég keypti eitthvað af fötum í dag.

Það þarf að laga lokahlutann af sögunni dálítið mikið. Hef ekki unnið mikið í dag.



19. janúar

Lítið varð ég var við óveðrið í gær en bæði flugsamgöngur og lestarsamgöngur lágu meira og minna niðri, tré rifnuðu upp með rótum og einhver dauðsföll urðu.

Klukkan er að nálgast 14 að staðartíma og ég er búinn að endurskrifa lokahlutann. Núna líst mér aftur vel á þetta allt saman.

Er á bar nálægt lestarstöðinni. Það eru 57% eftir af tölvubatteríinu. Í sjónvarpinu er verið að sýna Heiner Brand, þjálfara Þjóðverja, í eldgömlum landsleik, líklega frá 8. áratugnum. Hann er með samskonar yfirskegg og núna.

Ég er í nýrri peysu og mér er of heitt í henni.

Er bókinni lokið núna? Ég veit það ekki. Henni er a.m.k. lokið í bili.

Forvinna að henni hófst í Mannheim í janúar 2005. Það voru mjög mislukkuð skrif.

Formlega vinna við hana hófst á Eyrarbakka í apríl 2005 hélt áfram í Reykjavík út árið, einnig á Krít um sumarið, tók stökk í Darmstadt í janúar 2006. Síðan var öllu fleygt og byrjað upp á nýtt á Vopnafirði í apríl 2006. Núna virðist þessu öllu lokið í Heidelberg í janúar 2007. Auðvitað hef ég á þessu tímabili varið langmestum tíma í Reykjavík en ég gæti samt trúað því að samanlagt hafi stór hluti af sögunni, jafnvel allt að helmingur, verið unninn í þessum fríum utan Reykjavíkur. Heimar er maður að baksa saman hálfri til einni og hálfri síðu þegar vel gengur, ekki neinu þegar illa gengur, en hér eru þetta margar blaðsíður á dag.

Ég næ fyrsta tapleik Íslendinga á HM, gegn Frökkum á mánudagskvöldið. Þá verða okkar
menn búnir að vinna bæði Ástrala og Úkraínu.


20. janúar

Helsta fréttaefnið hér hefur verið óveðrið. Vonandi kemur ekki annar stormur í fyrramálið og gerir mig að strandaglópi.

Þjóðverjar spiluðu illa gegn Brasilíu í opnunarleik HM í handbolta. Ég held að þeir séu frekar slappir núna og Ísland gæti vel unnið þá í milliriðli.

Heima mun meiri þungi komast í umræðuna á næstunni þegar nær dregur kosningum. Eins og margir tippa ég á stjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar á næsta kjörtímabili. Vonandi fer fylgið að reitast af Frjálslyndum og lendir þar sem það á heima, hjá Sjálfstæðisflokknum.

Ég sé fram á að hætta að skrifa um stundarsakir á meðan handritið er í lestri og salti. Ég veit ekki ennþá hvort þetta er góð saga, veit bara að ég geri ekkert í þessu á næstunni. Ætla að reyna að verða mínum nánustu að gagni í þeim aukna frítíma hrekkur til við þetta.

Myndi helst vilja fara að stunda meiri og fjölbreyttari íþróttaiðkun með Erlu. Sjáum hvað leggst til.

Ég hlakka ekki beint til kuldans heima. Hérna komst hitinn upp í 16 stig í gær.

5 Comments:

Blogger Tinna Kirsuber said...

13. nóvember stemmir ekki laxi... Velkomin heim annars!

1:59 e.h., janúar 22, 2007  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Æ, ég hef verið eitthvað utan við mig þennan. Takk.

2:01 e.h., janúar 22, 2007  
Blogger oakleyses said...

jordan shoes, tory burch outlet online, louis vuitton outlet online, ray ban sunglasses, louis vuitton, louis vuitton handbags, christian louboutin shoes, cheap oakley sunglasses, true religion outlet, michael kors outlet online, oakley sunglasses, michael kors outlet online, burberry outlet online, ray ban outlet, tiffany jewelry, louis vuitton outlet, longchamp outlet, red bottom shoes, coach outlet, kate spade outlet online, kate spade outlet, longchamp handbags, michael kors handbags, michael kors outlet online, burberry outlet online, louis vuitton outlet, polo ralph lauren, michael kors outlet, gucci handbags, longchamp outlet online, nike outlet, true religion, coach outlet, nike air max, coach outlet store online, tiffany and co jewelry, chanel handbags, nike free, christian louboutin outlet, michael kors outlet store, polo ralph lauren outlet, nike air max, christian louboutin, coach purses, prada handbags, oakley vault, prada outlet

2:59 f.h., desember 01, 2014  
Blogger oakleyses said...

p90x workout, asics shoes, reebok shoes, canada goose outlet, instyler ionic styler, longchamp, north face jackets, uggs on sale, giuseppe zanotti, hollister, abercrombie and fitch, mont blanc pens, babyliss, lululemon outlet, marc jacobs outlet, north face jackets, canada goose outlet, mcm handbags, nike trainers, ugg outlet, ugg, ugg boots, nike roshe, replica watches, ghd, valentino shoes, uggs outlet, birkin bag, nfl jerseys, jimmy choo shoes, soccer shoes, ugg boots, canada goose, nike huarache, beats headphones, insanity workout, canada goose outlet, new balance outlet, ugg soldes, ferragamo shoes, uggs outlet, soccer jerseys, mac cosmetics, herve leger, celine handbags, wedding dresses, vans outlet, chi flat iron, bottega veneta

3:41 f.h., desember 01, 2014  
Blogger oakleyses said...

pandora charms, moncler, toms outlet, timberland shoes, ray ban, hollister clothing, swarovski uk, canada goose, montre femme, ralph lauren, converse shoes, ugg, moncler, supra shoes, pandora uk, hollister, links of london uk, swarovski jewelry, uggs canada, baseball bats, gucci, lancel, canada goose, pandora jewelry, wedding dress, juicy couture outlet, moncler, hollister canada, thomas sabo uk, canada goose, iphone 6 case, coach outlet, replica watches, oakley, canada goose pas cher, parajumpers outlet, louboutin, moncler, moncler outlet, air max, karen millen, converse, vans, moncler, moncler outlet, louis vuitton canada, juicy couture outlet, nike air max

3:52 f.h., desember 01, 2014  

Skrifa ummæli

<< Home