föstudagur, apríl 23, 2004

Sjónvarpsauglýsingarvinnan kom upp í morgun. Ég var togaður inn á fund og þarf að skila nokkrum hugmyndum á mánudaginn. Mér leist ekki á blikuna fyrst en eftir hálfkæringslegt samtal við reyndan vinnufélaga var ég kominn með grunnhugmynd frá honum og er búinn að útfæra hana í fimm atriðum. Nefndi grunnhugmyndina við Börk "krefjanda" (Creative Director), honum leist strax vel á hana og sagði mér að sýna sér eitthvað á mánudag. Það sem af er hefur þessi vinna verið algjörlega fyrirhafnarlaus. Er hugsanlegt að hún verði svo til enda? - Auglýsingastofuvinna getur nefnilega ýmist verið algjört þrælapuð eða laufléttur leikur.

Fékk leyfi til að skreppa á Bókaþing í Iðnó og hlustaði þar á eitursnjallt erindi Rúnars Helga um þýðingar.