miðvikudagur, janúar 05, 2005

Algengustu viðkvæðin þessa dagana eru: "Ef ég segi þér þetta þá máttu ekki fara að blaðra um það á þessari bloggsíðu þinni." Eða: "Ég vil ekki að þú sért að minnast á mig á þessari bloggsíðu þinni". Átti sáttastund með Skáldaspíruklíkunni í gærkvöld undir miðnættið á Hressó. Upplesturinn, sem ég þorði ekki að láta sjá mig á, hafði heppnast býsna vel og menn voru glaðir. Einn tók upp límbandsrúllu og sagði: "Nú skulum við líma fyrir túlann á honum, síðan hendurnar saman og loks tærnar svo hann geti örugglega ekki athafnað sig á lyklaborðinu."

Ég er farinn að hlakka til HM í handbolta. Viggó fylgir ferskleiki og von. En auðvitað getur sú von brugðist. Annars er erfitt að finna fólk sem hefur áhuga á handboltalandsliðinu, allt þar til stórmótin hefjast og eins og einn leikur vinnst.