þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Ekki gat ég þagað lengi. Samt hef ég svo óskaplega lítið að segja. Mér var bara allt í einu að detta það í hug hvað það er fyndið að húmor flestra barna skuli á tilteknum aldri fara að snúast um kúk og piss. Kannski er ég svona hrifinn af þessu vegna þess að ég hef lítið þroskaðri húmor en þetta sjálfur og yfirleitt gengur mér betur að fá börn til að hlæja að minni fyndni en fullorðna.

Ennfremur gekk mér nokkuð vel að skrifa í gærkvöld og er að fyllast dálítilli von um söguna. Samt er svo óendanlega langt í land með að ég geti einfaldlega slegið því föstu að ég sé með gott verk í smíðum. Auk þess á ég uppkast að útvarpspistli í tölvunni en líklega er ég með síðasta pistilinn á föstudaginn. Í kvöld er létt skokk framundan og síðan hjóla ég væntanlega niður í vinnu og huga að textum, lagfæri pistilinn og tekst vonandi að komast eitthvað áleiðis með söguna.