fimmtudagur, ágúst 17, 2006

13. ágúst

Reyndar ekki annir heldur frí. Er í sumarbústað uppi í Munaðarnesi. Ég hef úthúðað sumarbústaðaferðum í ræðu og riti en nú man ég ekki hvers vegna því ég var farinn að hlakka mjög til ferðarinnar á föstudaginn og hef það aldeilis frábært hérna. Þetta er líka ekkert hokur heldur höfum við 60 fermetra til umráða plús heitan pott. Veðrið hefur leikið við okkur og við Erla höfum náð nú þegar tveimur morgunæfingum fyrir Reykjavíkurmaraþon sem er eftir aðeins sex daga.

Rúnar Helgi og Guðrún borðuðu með okkur hérna í gærkvöld og tóku strákana með sér. Þeir eru eins og krakkar eiga að vera: klárir, forvitnir, hraustir, orðheppnir. Ekki spillti fyrir að sá eldri hló látlaust að flestu sem ég lét út úr mér.

Ég hafði eitthvað verið að fíflast með að ég vildi ekki fá þau í pottinn (þ.e. við Guðrúnu í vinnunni, hún er verkefnastjóri á Íslensku og situr beint fyrir aftan mig) eftir að hafa lesið söguna Erótík á Jónsmessunótt í smásagnasafni Rúnars Helga, Í allri sinni nekt. Sú fantagóða saga endar óhugnanlega eftir saklausa dvöl í heitum potti. – Rúnar skjallaði mig hins vegar enn og aftur fyrir söguna Eftir sumarhúsið. Erlu finnst hún óþægilega lík raunverulegum atburðum en viðurkennir þó að persónurnar séu frábrugðnar þeim sem áttu í hlut.

Sit með fartölvuna uppi í rúmi, Face Dances með Who í diskdrifinu. Ég er auðvitað ónettengdur og þessi færsla fæðist í word. Rétt á eftir opna ég skáldsöguhandritið.

Vinnufélagi í eldri kantinum sagði dálítið fallegt við mig um daginn, þ.e.a.s. vel orðað:

“Þú ert ýmist hvers manns hugljúfi eða allra andstyggð.”

Erlu fannst það mjög fyndið.


14. ágúst

Ég tók Hug með mér í bústaðinn en ég hef ekki lesið það rit síðan 1992. Þá átti ég reyndar efni í því sjálfur, viðtal við Matthew Lipman um barnaheimspeki. Ég man lítið hvað stóð í því. Fyrir röð tilviljana er ég síðan orðinn áskrifandi aftur. Þemaefni heftisins er Derrida og virðist ansi mikið torf sem ég leiði líklega hjá mér. Töluvert er hins vegar af öðru efni við hæfi “almennings” (t.d. rithöfunda í leit að innblæstri). Grein Zahavi um Sjálfið og tímann er t.d. fjarska skemmtileg og forvitnileg. Grein Jóns Á. Kalmanssonar, Nytsemi og skilningur, er mjög áleitin. Hún er jafnframt auðlesin, á erindi til almennings og myndi sóma sér í víðlesnara riti. Jón gagnrýnir þar nytjahugusun sem hann telur allsráðandi í nútímanum og gerir greinarmun á henni og heimspekilegri nytjastefnu. “Siðferðishugsun í anda Sókratesar á undir högg að sækja í nútímanum. Hið menningarlega “andrúmsloft” er henni ekki hagstætt. Sá hugsunarháttur um siðferði sem mörgum er tamastur nú til dags er einhvers konar nytjahugsun, hugsun sem leggur afleiðingar, eða vissa hugmynd um afleiðingar, til grundvallar … Í pólitík er alvanalegt að slæm verk séu réttlætt í nafni mikilvægs málstaðar og slík réttlæting á sér rætur í nytjahugsun. Sá sem aðhyllist slíkan þankagang staðhæfir að það geti bæði verið nauðsynlegt og siðferðilega rétt að vinna illt verk.”
Síðan er gaman að rifja upp kynnin af Sartre en Jóhann Björnsson skrifar aðgengilega grein um mikilvægan hluta af heimspeki hans. Í hvert skipti sem ég kemst í tæri við Sartre fæ ég á tilfinninguna að kenningar hans hafi verið bull í heimspekilegum skilningi, að ég tali nú ekki um vísindalegum. En þar með er ekki sagt að þær séu vitleysa í altækum skilningi. Ég held að sýn hans á tilveruna hafi verið skáldleg fremur en heimspekileg og kenningarnar eru innspírandi fyrir skáld enda Sartre sjálfur skáld. Sú meginhugmynd um mannleg samskipti sem reifuð er í greininni er flott skáldleg hugmynd, ein leið til að horfa á veröldina, en stenst hún nákvæma skoðun, sannreynslu? “Að verða fyrir augnaráði hins samkvæmt heimspeki Sartre er engan veginn jákvæð reynsla. Það minnir mig á mitt eigið varnarleysi. Ég er varnarlaus þar sem ég stend frammi fyrir augnaráði hins. Mér er með öllu ómögulegt að skynja augu hins á sama hátt og ég gerði áður en hann fór að horfa á mig og var eins og hver annar hlutur í umhverfi mínu. Ég tek ekki einu sinni eftir lit augnanna á meðan augnaráð hans beinist að mér.” J. B. Þessi fullyrðing stenst stundum próf raunveruleikans og stundum ekki. Það fer nú eiginlega bara eftir hverjum og einum. En er þetta akademísk heimspeki? Eru svona kenningar ekki frekar e.k. skáldskapur? Frjó hugsun, frumleg og heillandi, en afar óvísindaleg. Eða hvað? Svari þeir sem betur vita.

Mjög læsilega grein er síðan að finna þarna um Darwin og tilurð þróunarkenningar hans en ég er reyndar nýbyrjaður á henni.


- - - - -

Ég hitti Jón Kalmann Stefánsson í sturtunum í Borgarnesslauginni. Erla og Freyja sögðu að hvert einasta orð sem ég sagði við hann hefði heyrst út í laug en ekkert í Jóni sem hefur eðlilegan raddstyrk. Mér brá dálítið og hugsaði: Hvers vegna tala sumir svona hátt? Er þetta einhver ómeðvitaður belgingur í manni, taugaveiklun eða er röddin bara svona sterk? - Þetta gerist a.m.k. algjörlega óvart og ég þarf að beita mér mjög meðvitað í samræðum til að halda röddinni eðlilega lágri. - Ég spurði Erlu: “Hvernig ætli það sé að spjalla við mann sem talar svona hátt?” – Erla svaraði glottandi: “Maður reynir líklega að forðast hann.”


15. ágúst

Hvernig er hægt að hafa svo mikinn áhuga á kynhneigð annarra að maður vilji bjóðast til að breyta henni? Ef eitthvað er pervertískt (eða segir maður pervers?) þá er það þetta. Illgirnin á bak við auglýsinguna í Mogganum um síðustu helgi er auðsæ (sérstaklega miðað við tímasetningu birtingarinnar) öllum nema þeim sem stóðu að henni. Þeir blekkja sig með guðsótta. Þeir eru þeir einu sem vita ekki af eigin illgirni - nema kannski svona allra innst inni.

- - - - -

Þetta er búið að vera ágætt en ég hefði ekkert á móti því að fara að komast til borgarinnar aftur. Tveir dagar í viðbót.

5 Comments:

Blogger Ljúfa said...

Samskipti ykkar Erlu eru skemmtileg á prenti.

11:13 f.h., ágúst 18, 2006  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Já, þetta er blanda af stílbragði og sannleika.

11:57 f.h., ágúst 18, 2006  
Blogger oakleyses said...

jordan shoes, tory burch outlet online, louis vuitton outlet online, ray ban sunglasses, louis vuitton, louis vuitton handbags, christian louboutin shoes, cheap oakley sunglasses, true religion outlet, michael kors outlet online, oakley sunglasses, michael kors outlet online, burberry outlet online, ray ban outlet, tiffany jewelry, louis vuitton outlet, longchamp outlet, red bottom shoes, coach outlet, kate spade outlet online, kate spade outlet, longchamp handbags, michael kors handbags, michael kors outlet online, burberry outlet online, louis vuitton outlet, polo ralph lauren, michael kors outlet, gucci handbags, longchamp outlet online, nike outlet, true religion, coach outlet, nike air max, coach outlet store online, tiffany and co jewelry, chanel handbags, nike free, christian louboutin outlet, michael kors outlet store, polo ralph lauren outlet, nike air max, christian louboutin, coach purses, prada handbags, oakley vault, prada outlet

2:54 f.h., desember 01, 2014  
Blogger oakleyses said...

p90x workout, asics shoes, reebok shoes, canada goose outlet, instyler ionic styler, longchamp, north face jackets, uggs on sale, giuseppe zanotti, hollister, abercrombie and fitch, mont blanc pens, babyliss, lululemon outlet, marc jacobs outlet, north face jackets, canada goose outlet, mcm handbags, nike trainers, ugg outlet, ugg, ugg boots, nike roshe, replica watches, ghd, valentino shoes, uggs outlet, birkin bag, nfl jerseys, jimmy choo shoes, soccer shoes, ugg boots, canada goose, nike huarache, beats headphones, insanity workout, canada goose outlet, new balance outlet, ugg soldes, ferragamo shoes, uggs outlet, soccer jerseys, mac cosmetics, herve leger, celine handbags, wedding dresses, vans outlet, chi flat iron, bottega veneta

3:37 f.h., desember 01, 2014  
Blogger oakleyses said...

pandora charms, moncler, toms outlet, timberland shoes, ray ban, hollister clothing, swarovski uk, canada goose, montre femme, ralph lauren, converse shoes, ugg, moncler, supra shoes, pandora uk, hollister, links of london uk, swarovski jewelry, uggs canada, baseball bats, gucci, lancel, canada goose, pandora jewelry, wedding dress, juicy couture outlet, moncler, hollister canada, thomas sabo uk, canada goose, iphone 6 case, coach outlet, replica watches, oakley, canada goose pas cher, parajumpers outlet, louboutin, moncler, moncler outlet, air max, karen millen, converse, vans, moncler, moncler outlet, louis vuitton canada, juicy couture outlet, nike air max

3:47 f.h., desember 01, 2014  

Skrifa ummæli

<< Home