laugardagur, ágúst 26, 2006

Ég er staddur á Kaffi Roma við Rauðarárstíg en hluti smásögunnar Fyrsti dagur fjórðu viku gerist þar inni. Það rignir úti. Sagan fjallar m.a. um muninn á því að taka strætisvagn í Reykjavík upp úr aldarmótunum annars vegar og hins vegar þetta 20 til 30 árum fyrr. En núna er búið að breyta strætókerfinu og ég er með nýja leiðakerfið fyrir framan mig á borðinu, í litlum bæklingi - það er sett upp eins og neðanjarðarlestarkerfi erlendis.

Fyrsti dagur fjórðu viku verður gefin út á ensku í þarnæsta mánuði, eins og komið hefur fram. Kannski ferðast eintak með neðanjarðarlest í Manchester. Þann 19. október tek ég lestina frá London til Manchester til að hitta söguna mína. Þá verð ég líklega ennþá ekki kominn upp á lag með að ferðast aftur með strætisvagni á Íslandi.