mánudagur, júní 14, 2004

Utanlandsferða nýtur maður löngu eftir að heim er komið. Þær valda því að Reykjavík er ekki lengur þreyttur staður með götum sem maður þekkir of vel til að hafa gaman af þeim og kaffihúsum sem eru orðin leiðingjarnari en eldhúsið heima. Eldhúsið heima hættir m.a.s. að vera leiðingjarnt. Eftir að hafa gengið um stóra og litla staði í Kalíforníu og Arizona, merkilega og ómerkilega, og snætt á alls kyns veitingastöðum, þá fer ég að skynja Reykjavík líka sem borg í heiminum, með sinn framandleika. Smáatriðin öðlast líf. Át eggjaköku á Ítalíu í hádeginu og þar er viðarbrún vifta í loftinu og viftan speglast í glerborðplötunni. Tvær stúlkur koma inn, önnur ófrísk. Ég góni á þær. Ég góni á fólk sem heldur að ég sé kynóður eða að ég telji mig þekkja það, en aumingja fólkið veit ekki að meistari smásögunnar er alltaf í leit að efni.

Útlandatilfinning greip mig líka í fótboltaferðinni um helgina. Eftir leikinn í Garði snæddum við á veitingastað í Keflavík og horfðum þar á Portúgal - Grikkland á breiðtjaldi. Lítill veitingastaður, ungur stimamjúkur strákur afgreiddi okkur. Regnið lamdi gluggana og geðvonskulegar trjáhríslur voru á iði. Og mér fannst ég vera á ferðalagi í Bandaríkjunum, t.d. í einhverjum smábæ eins og Bolder City. - En auðvitað passaði veðrið ekki. En það er líka rigning víða í útlöndum. Kannski fannst mér ég vera í Kanada, þangað sem ég hef aldrei komið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home