sunnudagur, maí 01, 2005

Það var smásaga í Lesbókinni í dag eftir Ólaf Gunnarsson. Ansi stutt. Hún var allt í lagi en ekkert sérstök, ekki miðað við hann. Það loðir stundum við mikla skáldsagnahöfunda að þegar þeir spreyta sig á smásögum þá er metnaðurinn gjarnan í lágmarki, þetta er bara léttur leikur fyrir þá, afgangshugmyndir. - Þó má segja að Ólafur hafi skrifað nokkrar ansi góðar smásögur áður en hann sló í gegn með Tröllakirkju, en það fer eftir því hvað maður kallar smásögur og hvað nóvellur. Ég er hér að tala um Gaga og sögurnar tvær í Sögur úr Skuggahverfi. Ég hafði unun af að lesa þær allar en þær voru líklega um 20 þúsund orð hver. Fyrri sagan úr Skuggahverfisbókinni, Rússneska pönnukakan, er hreinasta afbragð.