mánudagur, júní 14, 2004

Enn gengur mér erfiðlega að fá áhuga að lesa skáldsögur svo ég tók tvö smásagnasöfn á Borgarbókasafninu í dag. Eina eftir O. Henry og aðra eftir Katherine Mansfield. Mansfield er án efa að mínu skapi og skrýtið að ég hafi ekki lesið hana fyrr, ekki nema eina eða tvær sögur. Ég hef líka furðulítið lesið eftir O. Henry, sem ætti í rauninni að hljóma álíka undarlega og að ég hefði aldrei farið á KR-völlinn. Ég ætla umfram allt að spá í endana hjá honum og uppbygginguna yfirleitt. Ég hef ekki verið maður óvæntra enda en það kann að vera að breytast. Staðreyndin er sú að ég hef hæfileika í að skapa einföld en snjöll plott og maður þarf að nýta það sem maður kann. Furðulegar tilviljanir og óvænt endalok samrýmast ekki raunsæisástríðu minni en það kann að vera þröngsýni. Smásagan var einu sinni nokkuð öflugt afþreyingarform og ég má alveg við því að auka afþreyingargildið hjá mér í framtíðinni. - Sem minnir mig á það að ég og útgefendurnir höfum orðið ásáttir um að næsta bók verði eiginlega að ná 300 eintökum í sölu ef við viljum halda þessu áfram. Hugsunin er sú að skrifa mikið og gefa út nokkuð ört næstu árin og smástækka þannig lesendahópinn því staðreyndin er sú að mínum fáu lesendum fækkar ekkert, það þarf bara að fá fólk til að byrja, svo bætist bara í.

Hefur einhver hér lesið þessa höfunda, O. Henry og Mansfield?