miðvikudagur, júní 23, 2004

Útgefendur hljómsveitarinnar Queen vildu á sínum tíma ekki gefa út lagið Bohemian Rhapsody á smáskífu vegna þess að það væri of langt og flókið til að geta orðið vinsælt. Hljómsveitarmeðlimir komu laginu hins vegar í útvarpsspilun og enn þann dag í dag sér ekki fyrir endann á vinsældum þess. Þetta var um miðjan 8. áratuginn.

Árið 1989 komst smásagnasafnið The Emperor of the Air í efsta sæti bóksölulista New York Times. Þetta var fyrsta bók læknanemans Ethans Canins.

Hvorug þessarra gömlu frétta úr menningarlífinu hljómar eins og furðufregn. Ekkert virðist eðlilegra en að hið frábæra lag Queen njóti vinsælda (þó að ég sé raunar orðinn leiður á því fyrir löngu, sem er önnur saga) né að hinar góðu og skemmtilegu sögur Canins hafi selst vel á sínum tíma. Engu að síður hefur það ávallt talist til undantekninga að löng verk nái vinsældum í dægurlagaheiminum og að stutt bókmenntaverk seljist vel. Raunar hafa þröng mörk um lengd hugverka til að fullnægja kröfum markaðarins orðið sífellt stífari og afdráttarlausari. Það hefur alltaf þótt vænlegra til vinsælda að semja stutt og smellin lög frekar en hátimbruð rokkverk. Þó seldist plata Mikes Oldfield, Tubular Bells, vel á sínum tíma en þar tekur sama verkið yfir báðar hliðar vinylskífunnar. Á skáldverkamarkaðnum hafa skáldsögur alltaf verið vinsælastar, síðan smásögur og loks ljóð. En áður fyrr var þó alltaf til fólk sem keypti smásagnasöfn og ljóðabækur og á 8. áratugnum keyptu hundruða þúsunda plötur með Frank Zappa sem innihéldu 10 mínútna gítarsóló í 15 mínútna lögum.

Lengdarmörkin eru smám saman að verða að nánast nauðsynlegu en ekki nægilegu skilyrði þess að sönglag eða skáldsaga njóti vinsælda. Lagið skal vera ekki lengra en 3 mínútur og skáldverk skal vera skáldsaga ekki styttri en 300 blaðsíður. Nokkuð auðvelt er að greina ástæður þessarra takmarkana þegar að tónlistinni kemur: Dægurlög verða umfram allt vinsæl vegna útvarpsspilunar og það hentar illa að leika löng verk á flestum útvarpsstöðvum, þar sem menn vilja koma að mörgum verkum ásamt öðru stuttu efni og mörgum auglýsingatímum.

Hin eindregna nútímakrafa markaðarins um langa skáldsögu er hins vegar nokkur ráðgáta. Ekki er hægt að segja að lestur fari almennt vaxandi og leshungur almennings kalli á langar bækur. Bent hefur verið á aðra skýringu á þessari kröfu, nokkuð skynsamlega: Að það sé í samræmi við tíðarandann, neysluhyggju og sífelldan hagvöxt að meta hluti eftir stærðinni. Stærð og stórfengleiki fari saman í hugum flestra. John O’Hara, sem var jafnvígur á langar og stuttar sögur, lýsti þessu raunar á afar fordómalausan hátt fyrir nokkrum áratugum. Í inngangi að endurútgáfu nokkurra stuttra skáldsagna sinna í einni bók segir O´Hara að smásögur og stuttar skáldsögur sé óvinsæl form en langar skáldsögur vinsælt form af þeirri einföldu og sanngjörnu ástæðu að fólk vilji fá eitthvað fyrir peningana sína. Sá sem kaupir nýja bók vill að bókin sé löng og ekki lesin upp til agna á tveimur kvöldum. Þetta er í raun ósköp eðlileg neytendakrafa.

En stærð bókar getur verið eitt og lengd sögu annað. Smásagnasafn með 20 sögum upp á samtals 3 eða 4 hundruð síður er ekki líklegt til að seljast vel og ekki heldur 5 hundruð síðna bók með fimm stuttum skáldsögum. Menn vilja ekki bara langar bækur heldur langar sögur. Ástæðan er mér hulin ráðgáta sem ég reyni ekki að ráða hér.

Það er gaman að lesa langar og miklar skáldsögur ef þær eru vel heppnaðar. Að sama skapi er þreytandi að þræla sér í gegnum ofvaxna nóvellu, einfalda og stutta sögu sem teygð er upp í 300 til 400 síður til að mæta nútímakröfunni um lengd. Slíkum dæmum fer sífellt fjölgandi. Það er hægt að segja sögur í rituðu máli á svo margvíslegan hátt að mig undrar að hið stóra og viðamikla form langrar skáldsögu sé að verða það eina viðurkennda.

Miðað við sögur almennt þá eru langar skáldsögur óskaplega langar. Tökum dæmi af vinsælla frásagnarformi, kvikmyndinni. Flestar kvikmyndir taka eina og hálfa til tvær klukkustundir í sýningu, örfáar stórmyndir eru lengri. Kvikmyndir í venjulegri lengd jafnast á við langar smásögur, nóvellur og stuttar skáldsögur, þær eru þetta á bilinu 50 til 150 blaðsíður. Hafið þið ekki tekið eftir því að í hvert sinn sem fræg skáldsaga er kvikmynduð er nánast öllu nema helstu atriðum hennar sleppt í myndinni? Stóra skáldsagan er nefnilega gríðarlega viðamikið form.

Smásagnahöfundi (þ.e. þeim eina hér á landi sem skrifar bara smásögur) er yfirleitt vorkennt fyrir þá fötlun að geta ekki skrifað „heila“ sögu. (Hver segir að hann geti það ekki? Nei, auðvitað trúir enginn því að hann vilji það ekki). Þeir sem skrifa stuttar skáldsögur eru hins vegar litnir sérlega illyrmislegu hornauga og sakaðir um vörusvik.
Sjón varð sérstaklega milli tannanna á bókmenntaunnendum fyrir síðustu jól vegna sögu sinnar, Skugga-Baldurs. Þetta væri ekki alvöru skáldsaga, þetta væri ekki „heil“ bók. Fólk virðist ekki átta sig á því að slíkt tal hefur ekkert með bókmenntir að gera heldur neytendamál. Neytendafrömuðir mættu alveg varpa fram þeirri hugmynd að svo stutt bók sem Skugga-Baldur ætti að vera tvö þúsund krónum ódýrari en Öxin og jörðin eftir Ólaf Gunnarsson. Nú eða að höfundurinn ætti að skrifa tvær nóvellur í viðbót og gefa út með Skugga-Baldri. En það hefur ekkert með gæði verksins að gera og það er undarlegt að ég skuli finna hjá mér ástæðu til að taka það fram. En tilefnin eru nægileg. Og svona tala helst þeir sem gefa sig út fyrir að hafa vit á bókmenntum.

Fyrir tveimur árum bauð Hallgrímur Thorsteinsson til sín gestum á Útvarp Sögu að ræða skáldsögu Mikaels Torfasonar, Samúel. Hallgrímur greip frammi í fyrir í fyrstu setningu viðmælanda síns og sagði eitthvað á þá leið að fjandans bókin væri allt of stutt (hún er um 220 blaðsíður), hann hefði lesið hana á tveimur kvöldum, hvað ætti það að þýða að gefa út svona stuttar bækur og kalla þær skáldsögur? Viðmælendurnir urðu reyndar nokkurn veginn kjaftstopp eftir þetta og lítið varð úr umræðum. En það er fólk á borð við nefndan Hallgrím sem umfram allt stundar bókmenntafræði af þessu tagi, það er þeir sem eru álitnir málsmetandi. Þó er sjaldgæft að slíkt fólk viðri fordómana í útvarp, þetta heyrist meira í tali manna milli og kaffihúsaspjalli.

Hvað hefði Hallgrímur sagt ef Útlendingurinn eftir Albert Camus hefði verið þarna til umræðu? Hún er 150 blaðsíður. Eða Gamli maðurinn og hafið eftir Hemingway? Hún er styttri. Hvað með smásögur Jorge Luis Borges? Sá vesalingur hefur aldrei náð að skrifa „heila“ sögu.

Með öðrum orðum: Hvaða fjandans montrembingur og belgingur er þetta? Hvers konar ga-ga viðhorf og umræða?

Þeir sem komnir eru yfir þrítugt lásu margir Grimmsævintýri í æsku. Grimmsævintýri eru líklega fyrstu smásagnasöfnin sem ég las. Það hvarflaði ekki að mér né væntanlega nokkrum öðrum að kvarta undan því að sögurnar væru of margar og stuttar og betra hefði verið ef Grimmævintýrið hefði ein löng og flókin saga. Hið sama má segja um ævintýri H.C. Andersen. Finnst einhverjum „Nýju fötin keisarans“ vera mislukkuð vegna þess að hún er of stutt? Hefði átt að rekja æskuár svikahrappanna tveggja sem „saumuðu“ fötin á keisarann, enn fremur tíunda eftirmála uppákomunnar og hvernig keisarinn endurheimtir smám saman mannorðið eftir að hafa komið fram nakinn, nú eða er steypt af stóli í kjölfar samsæris þar sem finna má tengsl við svikahrappana auk þess sem greint er nokkuð ítarlega frá skrautlegum ástarmálum eins samsærismannanna í hliðarsögu? Hefði þessi útgáfa af Nýju fötum keisarans verið betri?

Má ekki vera ljóst að það er jafn upprunalegt að skrifa stutta sögu og langa? Hversu löng í blaðsíðum talið væri munnleg frásögn góðs sögumanns?

Eftir því sem ég hef skrifað fleiri smásagnasöfn skynja ég að form rokkplötunnar hefur haft varanleg áhrif á mig. Hæfilega lík, hæfilega ólík lög sem mynda nokkurs konar samfellu með þema í textum og heildarsándi. Á frambærilegri plötu er oft eitt frábært lag, nokkur góð og nokkur sæmileg. Sjálfur hef ég ekki komist hærra en þetta í samsetningu smásagnasafna minna. Ég er enn að reyna en svo kemur væntanlega greatest hits plata eftir nokkur ár.

Á meðan maður setur saman bækur með stuttum 10 til 20 síðna smásögum getur verið gaman að hlusta á löng tónverk, gítarsóló Franks Zappa eða fusion jazz með Miles Davies. Njóti þeir sem vilja. Hinir halda sig við staðlaðar lengdir.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home