sunnudagur, febrúar 19, 2006

Freyja fór með nöfnu sinni og ömmu á Belgísku Kongó í kvöld og hafði gaman af. Þetta segir meira um leikritið en barnið. Freyja er enginn ofviti, hlustar á BlackEyedPeas, horfir á Friends og American Next Top Model og myndi gjarnan vilja eyða öllum dögum í Kringlunni. Leikritið er hins vegar þannig að það höfðar til mjög margra.

Þegar ég gekk heim í kvöld fannst mér skyndilega svo absúrd að einhver gæti búið við Skothúsveg eða Tjarnargötu. En þarna sá ég fólk inn um glugga að eiga við tölvu og raða á borð eins og ekkert væri sjálfsagðara, eins og það væri statt uppi í Seljahverfi. Einhvern veginn finnst manni að inni í þessum gömlu og virðulegu húsum geti bara þrifist skrifstofur og stofnanir, en þarna býr fólk í fullri alvöru.