þriðjudagur, apríl 27, 2004

Sögum má skipta gróflega í tvennt, höldum okkur við smásögur, því þær eru svo stuttar og einfaldar að þar eru frásagnarelementin hrein og klár: sögur með óvæntum endi og sögur með engum endi. Eða sögur með plotti og sögur sem mynd og afhjúpun. Ég hef ávallt hallast að síðari gerðinni, hún er raunverulegri, líkist lífinu meira. Óvæntir endar finnst mér yfirleitt billegir. Hins vegar er sagan sem ég er að skrifa núna undantekning, hún er fjandakornið öll í plottinu og endirinn óvæntur. Hef oft velt þessu fyrir mér og sé að írski höfundurinn Mary Lavin gerði það líka. Hún skrifaði sögur með litlu plotti, dró upp myndir og lét þær deyja út. Sögurnar hennar eru mjög raunverulegar. En ein sagan er saga með mjög sterku og áþreifanlegu plotti og mjög sniðugum endi. En söguna segir gamall maður smásagnahöfundi í samkvæmi og segir að svona sögur eigi höfundurinn að skrifa, þá nenni einhver að lesa eftir hana. Og þegar hún heldur áfram að segja að lífið sé oftast ekkert plott heldur ringulreið þá biður hann hana um að hætta þessu bulli. Og þannig endar sú saga.