föstudagur, júlí 16, 2004

Kattarsaga með óvæntum endi. Haustið 2002 fengum við okkur algráan kött. Freyja skýrði hann Grástein. Við létum gelda hann, hann var gæfur og heimaríkur, malaði óskaplega hátt og allt gekk að óskum. Vorið 2003 var hann þó farinn að verja miklum tíma að heiman en þó í nágrenninu. Um miðjan júní fórum við í Húsafell og gistum þar eina nótt. Við fundum ekki köttinn um það leyti sem við fórum af stað en það átti ekki að koma að sök enda var hann vanur að skríða inn um kjallaragluggann þegar hann vildi komast inn og leggja sig í gömlum barnavagni. Þegar við komum til baka fundum við hins vegar ekki köttinn og sólarhring síðar vorum við farin að óttast um hann. Um þetta leyti hóf ég störf á Íslensku auglýsingastofunni, eftir þrjá vinnudaga kom helgi og ég fór að leita að kettinum í mígandi rigningu, en án árangurs.

Stuttu síðar var hringt í okkur. Maður í nágrenninu hafði fundið hræið af Grásteini á Ægisíðunni, þar sem greinilega hafðið verið ekið yfir köttinn, jarðað hann við grásleppuskúrana og sett upp kross með nafni hans. Þessar upplýsingar, þar á meðal símanúmerið okkar, var að finna á hálsól kattarins. Freyja hefur ávallt síðan hlúð að leiðinu, lagt þar blóm og fyrir stuttu setti hún ljósmynd af kettinum á leiðið.

Haustið 2003 fengum við okkur annan kött, sem er nánast eins í útliti og hinn, algrár að lit líka. Freyja skýrði hann Gorm. Hann er nánast eins í háttum og Grásteinn, geldur, gæfur, malar hátt og er mikið úti þó að hann fari ekkert úr nágrenninu. Hann er sem betur fer lifandi og sprækur ennþá.

Rétt áðan átti ég kattarsamtal við tvo vinnufélaga úti í sólinni í portinu hérna. Þá kemur upp úr dúrnum að annar vinnufélaginn, Ævar, sölustjóri Auglýsinga- í símaskrá, er maðurinn sem fann kattarhræið og jarðsetti það svona smekklega. Ég tók í hönd honum, þakkaði honum kærlega og síðbúið, settist síðan við tölvuna og skrifaði þetta.

Aftur: Kærar þakkir, Ævar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home