Þegar ég gekk í vinnuna í morgun mætti ég Guðna Elíssyni fyrir framan Þjóðarbókhlöðuna. Hann ýtti á undan sér barnakerru í og í henni sat ung dóttir hans. Við röbbuðum stutta stund um markaðs- og kynningarmál rithöfunda. Þegar ég kvaddi hann sótti á mig sú tilhugsun að þetta lítilfjörlega atvik gæti í hugum einhverra verið hluti af fyrirbærinu elítu, eða a.m.k. bókmenntaheiminum: tveir menn um fertugt að rabba í léttum dúr um bókmenntalífið úti á götu í Vesturbænum, á milli þess sem en þeir krota í texta með blýanti eða rauðum kúlutússpenna. Birta af og til greinar fyrir smápeninga eða ókeypis. Bókmenntaheimurinn er blessunarlega tilkomulítill. Það eru engir peningar að heitið getur í bókaútgáfu, þetta eru fátæk fyrirtæki sem reyna að forðast það að fara á hausinn. Ég hef verið viðstaddur samkomur á borð við Hin íslensku bókmenntaverðlaun og get fullyrt að það eru látlausar og hógværar samkomur. Og þó að vissulega skipti það ýmsa höfunda máli að fá starfslaun eða ekki starfslaun þá er allur þessi frami óttalegur barnaleikur miðað við öll önnur viðskipti í samfélaginu, sérstaklega það sem gerist í fjármálafyrirtækjunum. Á endanum eru þetta bara einhverjir náungar að skrafa saman í sólskini rétt hjá Hringbrautinni.
Um daginn fékk ég óvænta tækifærisgjöf. Ég get ekki skýrt frá nafni gefandans. Þetta er snotur borðlampi, silfurlitaður. Ég var að setja hann upp á skrifborðinu í vinnuherberginu heima og velti fyrir mér hvort hann marki upphafið að nýrri bók.
Gráu hárin hafa gerst þvílíka árás á höfuð mitt bara allra síðustu daga að fólk hefur orð á breytingunni. Þar með fjúka síðustu leifarnar af unglegu útliti. Því minni ástæða til að láta sjá sig úti á götu og því meira tilefni til að loka sig inni við skriftir.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home