föstudagur, júní 25, 2004

Hitti Óskar Árna á Kaffisetrinu og við horfðum þar á Portúgal - England ásamt slatta af Tailendingum. Óskar Árni er líka með bók í haust, örsagnasafn. Við höfum hitt á að vera með frumsamin verk á sama tíma undanfarin ár, 2001, 1999 og svo núna. En hann hefur í millitíðinni gefið út mikið af þýðingum. Honum leist vel á mína útgefendur.

Síðustu nótt þegar ég kom heim af stofunni, frá skriftum, bar ég Kjartan úr hjónarúminu og inn í sitt herbergi. Hann virtist vera glaðvakandi (þó að hann væri það augljóslega ekki heldur staddur í draumi) og sagðist þurfa plástur vegna þess að höndin á honum væri orðin að beinagrindarhönd. Ég sagði Erlu frá þessu í símanum í dag og þá sagði hún mér að snemma í morgun þegar þau fóru á fætur og ég var enn sofandi hefði hann sagt undrandi eitthvað á þá leið að beinagrindarhöndin væri farin, var hann ánægður með að hafa endurheimt sína eðlilegu hönd. Engin geðshræring var í þessu hjá honum, hvorki í nótt né í morgun.

Það nálgast sífellt bókarlok og ég ætla að dóla við þetta eitthvað fram á nótt.