þriðjudagur, júní 29, 2004

Ég sá að Mogginn birti ritdóm um Tryggva Líndal í gær. Ef slíkt heldur áfram þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að ritdómar um bækur séu að falla út við samruna menningarsviða í blaðinu.

Í gær sá ég óorðaða klisju ljóslifandi fyrir mér: ég labbaði framhjá sjoppu og landsþekktur öryrki og baráttumaður sat þar í hjólastól við spilakassa með hálfa langloku uppi í munninum. Spilakassarnir eru skaðræði.

Ég las frétt á netinu um að lögreglan á Kýpur hefði upprætt 100 manna kynsvall á skemmtiferðaskipi. Fréttin er bæði á deiglan.com og The Guardian en hvergi kemur fram hver glæpurinn sé. Orgía um borð í skemmtiferðaskipi, so what? En auðvitað er það alltaf óþolandi þegar annað fólk skemmtir sér virkilega vel. Það er auðvitað glæpurinn. Annars ætti frekar að ráðast gegna spilakössum en kynsvalli.

Frelsi sumarsins er allsráðandi á heimilinu. Freyja gisti tvær nætur hjá Salvöru hans Jóns Óskars og þriðju nóttina gisti Salvör hjá okkur. Um eittleytið í nótt var Freyja að hlusta á Divine Comedy (hljómsveit sem allir í fjölskyldunni hafa gaman af) inni í stofu með okkur Erlu í stað þess að sofa. Síðan fékk hún að borða. Þetta er auðvitað ekkert uppeldi en 10 mánuði ársins er hún rekin á fætur fyrir átta, líka í svartasta skammdeginu. Þessi árstími er skemmtilega frjáls og oft skiptir engu máli hvað tímanum líður.