sunnudagur, júlí 11, 2004

Best að stikla á helginni aftur á bak og enda síðan í núinu. Fór með Kjartani á Spiderman 2 í Regnboganum áðan. Þar birtist okkur til að byrja með hugarfóstur hins gáfulega fyrirbæris, Kvikmyndaeftirlits ríkisins: Myndin er bönnuð innan 12 ára. Ímyndið ykkur þann starfa að góna á fullum launum á bíómyndir og setja aldurstakmarkanir á barnamyndir! Þetta kom þó ekki að sök, mér var hleypt inn með drenginn. Eins og við var að búast reyndist myndin vera leiðinleg þvæla enda hef ég aldrei haft gaman af vísindskáldskaparbulli og tæknibrellum. Í kynningunni rak ég augun í nafn Michals Chabons sem eins þriggja handritshöfunda. Chabon skrifaði skáldsöguna The Wonder Boys en eftir henni var gerð frábær mannleg kvikmynd með Michael Douglas, Tobey Maquire köngulóarmanni og Robert Downey Jr. Chabon skrifaði líka gott smásagnasafn sem heitir Werewolves in their Youth. Nú virðist mér hann vera genginn í björg. Ekki hefði Raymond Carver nennt þessu. Og hlæið nú og hneykslist á þröngsýni minni, netplebbar!

Við borðuðum á Gráa kettinum áður en við fórum í bíó. Kaffihús sem ég fer ekki oft á. Þarna gat ég heilsað Friðriki Erlingssyni með virktum en einnig gat að líta býsna ólánlegan hóp af fyllibyttum um fertugt. Ein þeirra fræg skáldkona sem ekki hefur gefið út bók í sex ár og mátti augljóslega sjá hvers vegna. Hún hefur hins vegar viðhaldið frægðinni með ýmsum uppákomum af sömu ástæðum: frægð er best viðhaldið með sukki og djammi því það tryggir sambönd. Ég segi því: Látum fyllibytturnar um frægðina en við listamennirnir skulum sjá um listina. (Já, hneykslist þið nú aftur, netplebbar). Það mátti hins vegar segja þessu fólki til hróss að þó að það væri afskaplega illa til reika þá var ekkert ónæði af því, ekkert rugl og engin háreysti, það drakk bara sinn bjór, fletti DV og hneykslaðist á Árna Johnsen og fleirum í fréttum, með lítt sannfærandi drafi. Ein stúlka í hópnum, sú sem leit best út, líklega af því hún var yngst, varla mikið yfir þrítugt, tók upp á því að mæna á mig langa stund. Ekki veit ég hvers vegna. Þetta var smágerð og frekar hugguleg stúlka þrátt fyrir grófa andlitshúð. Varla held ég að hún hafi laðast að mér því ég er líklega 70 kílóum þyngri en hún og 30-40 sentimetrum hærri. Það var engu líkara en hún væri að fara að mana mig í eitthvert karp. Ég lét hins vegar eins og ég tæki ekki eftir þessu og smám saman losnaði ég við augnaráðið.

Fór á KR-Fylki á laugardaginn. Þau eru að verða mörg árin sem liðin eru síðan ég byrjaði að sækja stórleiki í Frostaskjólinu. Og enn og aftur mikilvægur leikur hjá KR og Fylki sem því miður endaði með jafntefli. Leikurinn var samt góður.

Grasekkilslífið þykir mér heldur dapurlegt og frelsistilfinningin lætur ekki á sér kræla. Þessi fjölskylda mín er bundin sterkum böndum og ekkert nema gott um það að segja. Ég fór að út að skemmta mér á föstudagskvöldið (Kjartan í gistingu hjá ömmu sinni) og þó að sú skemmtun hafi verið til sóma þá var heimskoman ansi hreint dapurleg og einmanaleg. Nú hillir undir lokin á þessu. En á hinn bóginn eru framundan nokkrar tjaldferðir sem ég kvíði mikið fyrir. Kannski á ég eftir að sakna einlífisins þegar ég ligg andvaka á einhverri þúfunni á næstu vikum.

Í kvöld er Kjartan aftur kominn í gistingu því hann er í pössun á morgun hjá venslafólki og þau buðu honum að gista í kvöld. Ég ákvað að nota tækifæri og færa leiðréttingar inn í handritið, hef ekki komist í það verk vegna anna í vinnunni í liðinni viku. Rétt áðan hringdi Erla, hún er komin til byggða úr sinni gönguför og kemur heim á morgun. Hún saknar mín líka.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Skrifuðu ekki bæði Raymond Chandler og William Faulkner alls kyns rusl í Hollywood? Og þú sjálfur, eins og margoft hefur verið bent á þegar þú ferð yfir strikið, símaklám? Og selur nú fólki sjampó og bíladrasl? Án þess ég ætli að standa í neinu vandlætingarkarpi við þig - en þú ættir nú að vita það best sjálfur að menn verða að lifa. Chabon hefði kannski átt að taka törn í skúringum? Eða fara á sjó? Og hefði Spiderman verið betri ef hann hefði farið á sjó? Það segir mér heldur engin að börnin hafi ekki haft gaman af Spiderman - og þá er vinnan nú væntanlega ekki til einskis, eða hvað?

kveðja,

Eiríkur Örn Norðdahl

7:32 f.h., júlí 13, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Sæll. Og þakka innleggið. Ég verð að viðurkenna að þú greipst mig í bólinu þarna. Auðvitað er Chabon ekkert genginn í björg þó að hann hafi skrifað handritið að Spiderman 2, það er bara bull í mér. Þetta hefur eflaust engin slæm áhrif á rithöfundarferil hans. Ekki frekar en símaklámið breytti neinu um mínar smásögur. Ég gat hins vegar ekki stillt mig um að láta þess getið hvað mér fannst myndin barnaleg og léleg, mér leiðist þetta ógnardekur kvikmyndagagnrýnenda við Hollywood-framleiðslu ef í henni er nógu mikið af tæknibrellum. En þarna gengur maður um með 8 risastálarma og ógnar heilli borg en andstæðingur hans kemur til varnar með því að stökkva milli bygginga og spinna vefi. Fyrir mér er svona lagað bara barnaleg þvæla og ég gef skít í þessar fimm stjörnur sem gagnrýnendur eru að hlaða á verkið. - En auðvitað hafði drengurinn gaman af myndinni, til þess var leikurinn gerður.

11:56 f.h., júlí 13, 2004  
Blogger Unknown said...

ugg boots
true religion uk outlet
swarovski jewelry
barbour jackets
gucci,borse gucci,gucci sito ufficiale,gucci outlet
camisetas futbol baratas
oakley sunglasses wholesale
ralph lauren outlet
giuseppe zanotti outlet
nike roshe
michael kors handbags wholesale
mulberry bags
discount oakley sunglasses
mizuno running shoes
oakley outlet store
the north face outlet
fitflops clearance
ralph lauren outlet
louis vuitton bags
michael kors handbags
1221minko

4:49 f.h., desember 21, 2015  

Skrifa ummæli

<< Home