laugardagur, október 09, 2004

Til hamingu, Auður Ólafsdóttir, með Tómasarverðlaunin. Handritin voru hátt í sjötíu og því er borðleggjandi að Auður hefur skotið nokkrum þekktum höfundum ref fyrir rass.

Samruni svokallaðrar hámenningar og svokallaðrar lágmenningar hefur til skamms tíma tekist afar vel í breyttum efnistökum Lesbókar Morgunblaðsins. Í dag er hins vegar skotið langt yfir markið með forsíðugrein um Robbie Williams. Þar með er ekki lengur um að ræða samruna menningargreina heldur afstæðishyggju. Í sjálfu sér er ekkert rangt við að popp- eða rokktónlist eigi fulltrúa á forsíðu Lesbókarinnar en málið er að Robbie Williams er ekki merkilegur tónlistarmaður þó að hann eigi sína spretti. Ekki nema að afstaða Lesbókarinnar sé orðin sú að allt sé jafn merkilegt. Það er svo auðvelt að skjóta á svona karla eins og mig sem dirfast enn að gæðameta og segja að Spiderman 2 sé léleg kvikmynd, en það er í raun hugleysi og algjört stefnuleysi að gera öllu jafnhátt undir höfði. Þröstur Helgason hefur gert góða hluti í Lesbókinni sem var algjörlega stöðnuð þegar hann tók við blaðinu en núna hefur hann borið af leið. Eða hvar endar þetta? Verður næsta forsíðugrein um Britney Spears og sú þarnæsta um klámmyndastjörnu? Kæri Þröstur, þetta er bara rugl og bull. Snúðu af þessari leið.

2 Comments:

Blogger tomas said...

Ágúst, í hvaða samhengi var þessi forsíðugrein, um hvað var verið að fjalla? Tónlist RW, bransann eða eitthvað annað?

12:48 f.h., október 12, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Um nýja ævisögu hans, feril, o.fl.

2:19 f.h., október 12, 2004  

Skrifa ummæli

<< Home