mánudagur, október 04, 2004

Reykingamaður er ekki það sama og reykingamaður. Ég reyki að meðaltali eitt box af Cafe Creme vindlum á viku (tíu smávindlar í boxi). Stundum aðeins meira, stundum minna. Ég reyki aldrei á þannig stöðum að það geti orðið öðrum til ama, oftast fara reykingarnar fram úti á svölum heima á kvöldin. Eflaust er þetta ekki hollt, en af einhverjum ástæðum hef ég getað fiktað við þetta í tíu ár án þess að fíknin hafi ágerst. Önnur tegund af reykingamanni er sá sem fálmar reglulega eftir sígarettupakkanum í brjóstvasann og skutlar upp í sig sígarettu á hálftímafresti. Ég veit ekki hvers vegna ég get notað tóbak án þess að ánetjast því, hafandi í huga hvað ég hef alltaf átt erfitt með að hafa hemil á matarneyslu.

Cafe Creme boxin eru ákaflega fallega hönnuð, með mynd af rjúkandi kaffibolla utan á. Oftast reyki ég léttari tegundina, þessa í ljósbláu boxunum, því hún er enn bragðbetri. Um daginn var hún uppseld í sjoppu einni og ég keypti brúna boxið, með þeim sterkari. En búið var að eyðileggja hönnunina á boxinu með því að setja ljótan flennistóran borða yfir fram- og afturhlið með reykingaandróðri. Þvílíkt smekkleysi. Það drepur sig enginn á smávindlum. Er ekki hægt að láta áróðurinn nægja handa sígarettuþrælunum? Sígarettupakkar eru hvort eð er ekkert flottir í útliti og sígarettur svo vondar á bragðið að manni verður óglatt af þeim. Og hvers vegna í ósköpunum reykir fólk sígarettur með mentholbragði? Af hverju fær sér það ekki bara mentholbrjóstsykur?

4 Comments:

Blogger Ljúfa said...

Ef þú reykir smávindla eins og sígarettur þá geturðu víst drepið þig. Ég get fullvissað þig um að það er til fólk sem reykir vindla, stóra og smáa, eins og aðrir reykja sígarettur. Ég þekki þrjá.

2:20 e.h., október 05, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Ég skrifaði færsluna ekki nógu vel. Ef ég hefði gert það hefði skinið í gegn að ég er að grínast. Þá gæti einhver sagt: þetta er ekkert gamanmál. Og ég myndi svara: þess vegna grínast maður með það.

3:18 e.h., október 05, 2004  
Blogger Ljúfa said...

Fyrirgefðu. Ég er svo einföld sál að stundum fer kaldhæðni fram hjá mér. Ég hefði kannski átt að lesa færsluna tvisvar áður en ég tjáði mig.

7:01 e.h., október 05, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Þrátt fyrir ofansagt finnst mér þú ekki þurfa að afsaka neitt.

7:04 e.h., október 05, 2004  

Skrifa ummæli

<< Home