þriðjudagur, apríl 12, 2005

Komiði sæl. Hausinn á mér er ennþá troðfullur af kastalabyggingum, gömlu gluggaflúri og kirkjuskrauti í bland við Debemhamsbúðir, C&A og Hennes&Moritz. Þetta var afmælisferðin hennar Erlu og hún réð henni. Hins vegar skemmti ég mér líka vel þó að ég ferðist öðruvísi einn míns liðs. Prag kom okkur á óvart, hún er svo miklu fallegri og glæsilegri en okkur gat órað fyrir. Smekkvísin og listfengið er einhvern veginn ofin í allt, stórt og smátt, svo þétt að undir lokin var ég orðinn ímyndunarveikur og þótti lítill rafmagnsofn úti á miðju gólfi á kaffihúsi einstakt dæmi um smekkvísi Pragbúa. Velmegun virðist töluverð í borginni ef marka má miðbæinn en kannski er ekkert að marka hann.
Á föstudeginum hittum við Þráinn Bertelsson og Þóri ræðismann á Reykjavík, staðnum sem Þórir á og rekur. Erla varð fertug þann dag og kallarnir gáfu henni freyðivínsglas. Þráinn borgaði bjórinn minn og var hinn elskulegasti. Ég hef ekki hitt hann í persónu fyrr, bara séð hann í sjónvarpi, en mér fannst hann vera einstaklega ferskur og frísklegur, kannski líður honum bara svona vel í Prag sem hann þreytist ekki á að dásama. Hann fræddi okkur dálítið um fyrrverandi kónga og keistara í Bæheimi og gaman var að sjá þær frásagnir síðan á prenti í nýjasta Bakþankapistlinum.
Við vorum mikið í Gyðingahverfinu og skoðuðum m.a. fornan kirkjugarð þar og safn um helförina. Þar er að finna teikningar eftir börn í Terezni-gettóinu sem var rétt fyrir utan Prag. Íbúar gettósins lögðu mikla áherslu á að uppfræða og vernda börnin eins og hægt væri við erfiðar aðstæður og afraksturinn var m.a. áhrifamiklar teikningar. Það er heldur þrúgandi stemning inni á gyðingasöfnunum. Safnvörður hirti mig fyrir að kalla á Erlu sem var inni í næsta herbergi og sussaði síðan hvað eftir annað á hóp skólanema vegna kliðs sem myndaðist. Ennfremur urðu allir karlmenn að bera höfuðfat inni á söfnunum og þeir sem ekki voru með húfu eða hatt á höfðinu fengu bréfkollur við innganginn. Mér finnst þetta dálítið mótsagnakennt. Þeir sem breytt hafa bænahúsum sínum og kirkjugörðum í söfn og selja að þeim aðgang háu verði geta ekki ætlast til þess að gestir steinþegi og lúti höfði í skömm yfir því að vera ekki gyðingar. Aldrei er maður áreittur með þessum hætti inni í kaþólskum kirkjum þó að þar sé að sjálfsögðu að finna áletranir um tilhlýðilega virðingu og umgengni.

Tékkneskur matur þykir mér góður en kannski er hann ekki allra. Sveitalegur og afar eindreginn. Sætar sósur, soðið grænmeti og þykkar, safaríkar og hæfilegar steiktar kjötsneiðar. Síðast en ekki síst brauðbúðingar, sem kallast á ensku dumplings, afar bragðgóðir en hafa þann galla að bólgna út í maganum á manni. Eitt kvöldið lentum við inni á einum af mörgum stöðum sem kenndir eru við Góða dátann Sveijk í undirtitli. Þar vorum við spurð um þjóðerni við innganginn og fengum síðan matseðilinn á íslensku eftir að okkur var vísað til borðs hjá rússnesku pari. Þarna sátu allir hlið við hlið eins og um samkvæmi væri að ræða. Rússneski karlinn var sauðdrukkinn en vinsamlegur og kurteis. Hann gaf mikið frat í Chelsea og Abramovits en sagðist halda upp á eitthvert rússneskt lið sem ég náði aldrei að greina. Með reglulegu millibili stormuðu tveir tónlistarmenn inn í salinn, léku slagara á horn og harmonikku og sungu hástöfum. Salurinn tók undir með lófaklappi og stappi.

Þegar heim kom hafði ýmislegt gerst. Magnús Sigurðsson, háskólanemi og ÁBS-lesandi hafði fengið birt ljóð í Lesbókinni. Til hamingju með það. Gunnar Randversson svaraði ljóðaníðgrein EÖN (sem birtist í TMM). EÖN svarar síðan á bloggsíðunni sinni. Svarar og svarar og svarar.
Ég á eftir að tékka á Hildi. Vonandi gengur henni vel.

Framundan eru skriftir, að sjálfsögðu. Enn er það skáldsagan stutta sem er á dagskrá en að auki er mig skyndilega farið að langa til að þýða Alice Munro. Veit ekki alveg hvernig ég á að leysa þetta enda hef ég ekki hugsað mér að segja upp vinnunni og fara að lifa á loftinu. Það er öllu skemmtilegra að rorra í velsældarspikinu.

13 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Finland fagnar heimkomu þinni!

3:05 e.h., apríl 12, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Þökk fyrir það. Nú þætti mér gaman að fara að vita hver af vinum Sæma þú ert mátt. Endilega gefðu þig fram næst þegar þú sérð mig.

3:09 e.h., apríl 12, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég verð fyrir sífelldu aðkasti í kaþólskum kirkjum og fæ aldrei að halda hattinum sama hvað ég tauta og raula. Veit ekki til þess að hatturinn minn sé minna virði en kollvikin þín.

-eön

4:10 e.h., apríl 12, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Það yrði væntanlega vel tekið á móti þér í bænahúsum gyðinga. Annars var það heldur dapurlegt að sama daginn og ég hafði kynnt mér örlög barnanna í Terezní sem nasistarnir myrtu flest á endanum horfði ég á ofstækisskrílinn á Gaza í sjónvarpinu og þar voru allir karlanir með samskonar kollu á höfðinu og ég þurfti að bera um daginn í safninu.

4:12 e.h., apríl 12, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég skil hvað þú meinar. Þú hefur ekki haft áhyggjur af því að þeir skyldu vera með 2 augu, 2 eyru og munn alveg eins og þú... Ætli Kafka hafi ekki stundum borið svona húfu? Isaac Bashevis Singer? Sholom Aleikhem í það minnsta. Woody Allen þegar hann var ungur maður. Kippa-hattar drepa ekki, fólk drepur.

4:54 e.h., apríl 12, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Ég get ekki séð að við séum ósammála um eitt einasta atriði.

5:00 e.h., apríl 12, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Hvað með tollinn?

Gústi þú pantar oft bækur er það ekki? Ég pantaði um daginn bók, notaða í gegnum Amazon, á 16 dollara með sendingarkostnaði (ekki dali), svona um 1000 krónur og þurfti að borga að auki 495 kr. Það gerir um það bil 50% skatt. Getur það passað?
Er búinn að vera panta bækur í smátíma en aldrei pælt í þessu fyrr. Maður er nefnilega svo ánægður með að fá bækurnar sjáðu til að maður gleymir sér í sæluvímunni. Hefurðu lent í þessu sama?

5:07 e.h., apríl 12, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Ég pantaði í fyrsti skipti um daginn bók eftir Alice Munro og tónleika með Divine Comedy. En Erla sá um þetta fyrir mig og ég leit ekki á verðið.

5:09 e.h., apríl 12, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Af þessum fimmhundruðkalli er eitthvað í kringum þrjúhundruð fast gjald (fyrir tollmeðferð póstsendinga) - skoðaðu seðilinn og þá ættir þú að sjá það. Þess vegna borgar sig að panta meira í einu.

5:31 e.h., apríl 12, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Og meðan ég man, TMM-greinin mín er kannski ljóðaníðgrein, en bara að hálfu, hún er líka serenaða til listarinnar að ljóða.

eön

9:42 e.h., apríl 12, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Já, þetta var nú ekki úthugsað orðalag hjá mér. Ég vil ekkert blanda mér í ljóðadeilur enda hef ég verið latur að lesa ljóð undanfarin ár.

9:43 e.h., apríl 12, 2005  
Blogger oakleyses said...

red bottom shoes, michael kors outlet online, true religion, tiffany and co jewelry, nike air max, oakley sunglasses, ray ban outlet, tory burch outlet online, tiffany jewelry, michael kors outlet, louis vuitton, nike outlet, oakley vault, kate spade outlet online, prada handbags, nike free, longchamp outlet, ray ban sunglasses, nike air max, coach outlet store online, burberry outlet online, christian louboutin, coach outlet, christian louboutin shoes, christian louboutin outlet, louis vuitton handbags, michael kors outlet store, michael kors outlet online, polo ralph lauren, cheap oakley sunglasses, chanel handbags, coach purses, coach outlet, prada outlet, kate spade outlet, polo ralph lauren outlet, burberry outlet online, longchamp handbags, true religion outlet, louis vuitton outlet online, gucci handbags, jordan shoes, longchamp outlet online, michael kors handbags, louis vuitton outlet, michael kors outlet online, louis vuitton outlet

1:55 f.h., nóvember 29, 2014  
Blogger oakleyses said...

birkin bag, ferragamo shoes, ugg, reebok shoes, asics shoes, insanity workout, hollister, giuseppe zanotti, chi flat iron, soccer jerseys, herve leger, jimmy choo shoes, uggs outlet, new balance outlet, replica watches, lululemon outlet, nike huarache, north face jackets, ugg boots, p90x workout, longchamp, canada goose outlet, uggs on sale, abercrombie and fitch, beats headphones, wedding dresses, vans outlet, valentino shoes, mac cosmetics, canada goose outlet, canada goose, uggs outlet, celine handbags, soccer shoes, nike roshe, mcm handbags, marc jacobs outlet, bottega veneta, mont blanc pens, ugg outlet, canada goose outlet, nfl jerseys, ugg soldes, babyliss pro, ghd, nike trainers, north face outlet, ugg boots, instyler ionic styler

2:11 f.h., nóvember 29, 2014  

Skrifa ummæli

<< Home