sunnudagur, febrúar 18, 2007

Í Silfri Egils í dag var endalaust verið að væla um hvað börn hefðu það slæmt á Íslandi, hvað vinnuþrælkunin væri mikil og neyslubrjálæðið ægilegt.

Staðreyndin er sú að Íslendingum finnst gaman að vinna og það er frábærlega gaman að vinna mikið ef maður hefur skemmtileg verkefni.

Önnur staðreynd er sú að íslenskir leikskólar eru frábærir og börnum líður vel þar.

Börn hafa gott af því að sinna krefjandi áhugamálum utan skólans, eins og t.d. tónlist og fimleikum - það agar þau undir framtíðina í kapitalísku samfélagi.

Það sem fólk þarf að gæta sín á er vissulega neysluhyggja, í þeim skilningi að setja sig ekki á hausinn með því að eyða um efni fram. Fullorðið fólk verður að haga sér eins og það sé fullorðið ef ekki á illa fara.

Fólk þarf að gæta sín á áfengi og fíkniefnum og það þarf að stunda líkamsrækt til að viðhalda orku. Því við þurfum vissulega mikið energí til að eiga gott líf í þessu fjölbeytilega og kraftmikla þjóðfélagi - til að geta sinnt vinnunni, börnunum og áhugamálunum.

Þetta gengur ágætlega ef fólk leggur sig fram, gætir sín og umfram allt heldur saman hjónabandinu. Það þarf tvo til, tekjulega og tímalega. Ef fólk þarf að skilja er sameiginleg forsjá hins vegar lausnin.

Umfram allt þurfum við að forðast hugsunarhátt væluskjóðanna og hælbítanna sem vilja taka við stjórn landsins.