föstudagur, desember 26, 2008

Jólastund milli stríða

Ég fékk þrjár bækur í jólagjöf (sem ég tel nú upp í nefnifalli hér á eftir þó að strangt til tekið ætti ég að skrifa þær í þolfalli) : Dimmar rósir eftir ÓG, sem ég átti fyrir og þarf að skila; Bjöguð enska Lúdmílu eftir DBC Pierre, sem mér líst ekki á og ætla að skila; og Segðu mömmu að mér líði vel eftir GAT, sem ég las á jólanótt og jóladagsmorgun. - Það er gaman að lesa GAT vegna stílsins, en hann er rómaður stílisti, nokkuð sem er algengt meðal rithöfunda en bara sumir þeirra fá lof fyrir það á meðan aðrir eru skammaðir fyrir efnisleysi. Sagan er samt vonbrigði en tæpast af gæðaskorti. Þannig átti ég von á nútímasögu en GAT fangar virkilega vel reykvískan sumaranda í góðærinu og ekki spillir fyrir að söguhetjan á heima á Fálkagötu og kærastan hans á Tómasarhaga. En svo kemur á daginn að mestöll sagan er endurlit um tilhugalíf og hjónaband foreldra söguhetjunnar. Bókin er 150 síður. Nóvellan getur verið vandræðaform. Bók GAT virkar á mann eins og hún endi áður en hún byrjar. Hliðarspor eftir sjálfan mig vakti mörgum lesendum áþekka tilfinningu. En það eru bara höfundar eins og ég sem eru skammaðir fyrir slíkt af gagnrýnendum á meðan aðrir eru einhvern veginn ósnertanlegir og gagnrýnendur þora aldrei að hreyta neinu í þá; slíkir höfundar verða eiginlega að sjá um að gagnrýna sig sjálfir. Sem þeir eflaust gera. Loftskeytamaðurinn eftir Knut Hamsun er 120 síður og fjallar um meintan kvennabósa. En kvennabósinn kemst ekki yfir einn einasta kvenmann í sögunni. Loftskeytamaðurinn endar áður en hún byrjar. - Í smásagnasöfnum er þetta ekki vandamál. Smásagan felur í sér knappleika og maður veit að þetta er búið þegar myndin hefur verið dregin upp. Og svo tekur næsta smásaga við og allar sögurnar geta náð að skapa sterka heildatilfinningu eða a.m.k. fullnægju. Í nóvellu er bókin búin þegar stutt sagan er búin.

Ég byrjaði á BA-ritgerðinni aftur í dag og skrifaði í sirka klukkustund. Í gærkvöld skrifaði ég sirka klukkutíma í skáldsögunni. Jólaslenið kemur í veg fyrir meiri afköst.

Ég fór hins vegar út að skokka í dag og í gær var ég bæði í boltaleikjum og skokki úti í kuldanum.
Nýju ári mætir maður fullur metnaðar enda verða miklar breytingar á mínum högum og krefjandi verkefni framundan.

Það tekur við háskólanám, skriftir halda áfram og í febrúar fer ég að kenna í Mími. Hef minna á milli handanna peningavís og miklu meira að gera.

24 Comments:

Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said...

Hvers vegna líst þér ekki á DBC Pierre?

4:04 e.h., desember 26, 2008  
Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said...

Og gleðileg jól, meina ég auðvitað líka - maður kann orðið enga mannasiði.

4:04 e.h., desember 26, 2008  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Gleðileg jól og takk fyrir kveðjuna. Það hefur verið skrifað illa um þessa síðari bók DBC Pierre. Hefurðu lesið hana?

4:27 e.h., desember 26, 2008  
Blogger Hermann Stefánsson said...

Er DBC ekki náunginn sem sótti að sögn strippbúllur með Hallgrími Helga á dögunum í Vilníus eða einhvers staðar?

4:53 e.h., desember 26, 2008  
Blogger Hermann Stefánsson said...

Já og gleðileg jól

4:53 e.h., desember 26, 2008  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Gleðileg jól, Hermann.

6:21 e.h., desember 26, 2008  
Blogger Hermann Stefánsson said...

Ég er ósammála um bók Guðmundar Andra af tveimur ástæðum: 1) Þetta er alveg prýðisgóð bók, 2) Umfjöllun um hana einkenndist ekki af hrósi um góðan stíl heldur þvert á móti einhverra hluta vegna af vandræðagangi um hvað eigi eigi eiginlega að gera við þetta hugtak, stíl, sem er ekki skylt stílfræði eins og Þorleifur Hauksson stundar heldur er nokkurs konar frasi, gæðastimpill, alveg merkingarlaus, enda hvergi notað sem gæðastimpill nema á Íslandi, dauður frasi um verk GAT. Hvað er eiginlega stíll? Að bókin endi áður en hún byrjar sé ég ekki að komi að sök fremur en að sé einkenni, þetta er ekki góðborgaraleg ópera heldur hversdagsprósi. Ýmislegt hefur komið í veg fyrir nokkur bendi á það sem raunverulega er áberandi við þessa bók: Hún er kúvending, höfundur sem áður var breiður samfélagsanalýtíker er nú skyndilega orðinn ... tja, rómantíker.

9:57 e.h., desember 26, 2008  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Mér finnst hún hafa uppbyggingu og frásagnarmáta miklu lengri sögu. Nútímasagan um aðalsöguhetjuna er nánast engin, eða vægast sagt mjög tilþrifalítil og snertir mig lítið. Saga foreldranna er eina sagan. Það hefði kannski bara átt að verða sagan í bókinni, og dálítið lengri. Ég hefði viljað miklu sterkari afhjúpun á sögumanninum.

En þetta er ekki slæm lesning nema síður sé.

11:27 e.h., desember 26, 2008  
Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said...

Ég las hana hálfa og þótti einfeldningsleg. Var bara forvitinn að vita hvers vegna þér litist ekki á hana.

Ef Hermann lítur hér aftur inn þætti mér gaman að vita hvað hann á við með "stíll" og að það sé hvergi gæðastimpill annars staðar en á Íslandi ... þar sem ég þekki til er gjarnan mikið talað um stíl, en það er kannski einhver allt annar stíll en Hermann kallar stíl.

12:48 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Hermann Stefánsson said...

Hvar er svona mikið talað um stíl? Í Finnlandi? Ég gæti auðvitað haft á röngu að standa en ég sé hvergi þessa ofuráherslu á stíl sem hér er stundum viðhöfð og í þessari sömu merkingu, þetta er kannski eitthvað norrænt en sunnar er stíll meira lýsandi orð en lof, staðsetning á registri, tegund texta eða málsnið. Þurr stíll, knappur stíll, barrokkstíll o.s.frv. Ég veit ekki vel hvað stíll einn og sér er (þótt ég myndi allsekki ganga eins langt og ónefndur maður í Lesbók á dögunum sem kallaði stíl íslenska plágu og kenndi við sukk og rakti til Þórbergs sem hefði verið vondur rithöfundur, sem er alger della). Er stíll val á orðum? Lengd setninga? Línuskipting? GAT skrifar sannarlega fallegan prósa og allt öðruvísi að þessu sinni en venjulega en stíll segir mér ósköp lítið svona eitt og sér fremur en bara blaðsíðutal en hvað veit ég.

4:29 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said...

Það er talað um stíl út um allt, Hermann - það krefst ekki ítarlegra rannsókna til að leiða það í ljós.

Ég er ekki viss um að allir séu á eitt sáttir um hvað sé átt við með orðinu - frekar en mörgum öðrum orðum (t.d. póstmódernisti, já eða stóll), en þú getur rennt í gegnum þetta ef þig vantar létta fótfestu: http://en.wikipedia.org/wiki/Stylistics_(linguistics)

Ég hef aldrei skilið það svo að stíll sé í sjálfu sér lofsyrði, nema eins og að halda lagi er lofsyrði - þ.e. þú velur þér melódíu og góður stílisti veldur henni. En sá sem skrifar góðan stíl er ekki sjálfkrafa góður í öllu öðru er varðar bókmenntir - og ég er ekki viss um að það þurfi góða stílista (a.m.k. ekki í íslenska, "ljóðræna" skilningnum) til að skrifa góðar bókmenntir.

6:19 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Hermann Stefánsson said...

Hvaða asafleipur er eiginlega í þér, Eiríkur? Auðvitað er talað um stíl út um allt og stílfræði út um allt, var einhver að halda öðru fram!?! Stíll er að sjálfsögðu mismunandi og stílfræði er svo aftur stór fræðigrein sem á sér forsvara í Þorleifi Haukssyni hér á landi og ég mælist til að þú lesir jafnhliða wikipediu þótt yfirborðsnetuppflettiþekkingin sé góðra gjalda verð.

Vanti þig létta fótfestu í hugtakinu stílisti á frummálinu, ensku, orðinu stílisti sem þú notar á sama íslenska hátt og allir aðrir, sem illa skilgreint kategorískt hrósyrði, geturðu flett hér í sömu orðabók: http://en.wikipedia.org/wiki/Stylist. Það er sem sé notað um hárgreiðslufólk víðast hvar nema á Íslandi, þar á meðal í enskumælandi löndum.

Svo skil ég ekki restina af hjá þér um stílista og bókmenntir og er ekki viss um að þú skiljir það sjálfur, þú gerðir vel í að venja þig af svona sigri hrósandi lokaorðalosta þegar þú talar við gáfað og hugsandi fólk því þú gerðir svo miklu betur í að fræða mann eitthvað um sömu hluti í Finnlandi í siðuðum samræðuSTÍL.

6:53 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said...

Mikið ertu hrokafullur og leiðinlegur maður Hermann, með fullri virðingu, þegar þú tekur þig til. Þótt það hlaupi í þig spéhræðsla, merkir það ekki að ég hafi verið að reyna að taka þig neinni bóndabeygju.

Víðast hvar erlendis talar fólk um stíl af alveg jafn mikilli yfirborðsmennsku og á Íslandi - oft liggur ekkert gríðarlega mikið á bakvið það. Það er stundum ástæða til að ásaka Íslendinga um heimóttarskap, en það er ósköp ódýrt trix að draga upp úr hattinum í hvert einasta sinn sem manni mislíkar eitthvað eða fyllist spéhræðslu gagnvart orðunum.

7:21 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Hermann Stefánsson said...

Ég þakka þín góðu orð, Eiríkur, um að ég sé hrokafullur og leiðinlegur maður sem í hleypur spéhræðsla og segi heilshugar sömuleiðis, með sömu fullu virðingu, það má með mjög góðum vilja kalla slíkt samræðustíll og búast við frjósemd og árangri. Reyndar finnst mömmu minni þvert á móti að ég sé einstaklega skemmtilegur og orðheppinn og að leitun sé að manni sem er lausari við hroka eða spéhræðslu. Frænda mínum í föðurætt finnst ég sérstaklega góður náungi og ég þyki ljúfur í umgengni og fyndinn fyrir þá sem kunna að meta og ég þekki rauðhærða stelpu sem hlær að öllum bröndurunum mínum.

Ég hef raunar enga sérstaka spéhræðslu gagnvart orðinu stíll og dreg engan heimóttarskap Íslendinga upp úr hatti. Það eru, með leyfi, svolítið glannalegar ályktanir - úr lausu lofti gripnar? Hinsvegar þykir mér rétt og gott að gera orð tortryggileg, hvar sem þau eru á bæ sett. Er það nema satt og rétt? hvað er stíll og hvað er stílisti - óháð stílfræði og alþjóðlegri stöðu orðsins?

7:37 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said...

Já, Hermann - þú afsakar stór orð. Ég er með flensu og stuttur í mér þráðurinn.

Þú gerir orð tortryggileg, gott og vel - enda hóf ég þetta á að spyrja þig hvað þú ættir við með stíl og það orð væri hvergi notað sem gæðastimpill annars staðar en á Íslandi.

Sem er einfaldlega ekki satt, hvað sem svo orðið þýðir.

9:26 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Hermann Stefánsson said...

Ég afsaka fúslega stór orð fólks með flensu.

Þetta með stílinn kann að vera rétt og kann að vera rangt, ég veit það ekki og þykir ekki svo stórt mál.

Nafnorðið stílisti kannast ég allavega ekki við í sömu merkingu í öðrum málum.

9:51 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said...

Smá tilraun, sem hefur gefið góðan árangur mín megin: Veldu þér frægt höfundarnafn, t.d. Auden eða Hemingway, gúglaðu því samferða enska orðinu stylist og voila.

Þetta má sjálfsagt endurtaka á öðrum tungum - mér gengur bráðvel á þýsku og sænsku.

En svo viltu kannski meina að þetta séu auðvitað allt aðrar og meira greinandi merkingar ...

10:02 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Hermann Stefánsson said...

Tja, já, ég er ekki að segja að þetta sé heilagur og algildur sannleikur.

Reyndar var ég að gera sömu tilraun á spænsku og niðurstaðan er sú að það er til ótrúlegur mýgrútur af spænskum hárgreiðslumeisturum sem heita sömu nöfnum og frægir rithöfundar. Tilviljun?

10:07 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said...

Ég trúi ekki á tilviljanir, og skýt á að þetta sé einhvers konar samsæri.

10:55 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Hermann Stefánsson said...

Fórstu nákvæmlega í gegnum þínar niðurstöður? Ég meina getur verið að þetta hafi verið bara eitthvað á borð við Selma Lagerlöf er en profesional stylist i Stockholm ... Auden is a stylist par excellence and with the aid of his assistant, Hemingway, also a well trained stylist, he will make your hair look more elegant than ever ...

11:12 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Hermann Stefánsson said...

Skora annars á ykkur báða í verðugri debat um bókmenntir og peninga á facebook/vestanattin.blogspot.com

Af hverju ert þú ekki á facebook, ágúst? Bloggfrumkvöðullinn sjálfur?

11:38 e.h., desember 27, 2008  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Einhvern veginn hefur facebookið algjörlega farið framhjá mér, ég veit ekki einu sinni hvernig það virkar. Kannski ramba ég bara á það einn daginn. Kannski leita ég ráða hjá þér eða öðrum. Ég er nefnilega enginn bloggfrumkvöðull þegar grannt er skoðað þó að ég virðist vera það við hliðina á Moggabloggurum. Fólk eins og Elíasbet Jónsdóttir aka Beta Rokk og margir óþekktari byrjuðu að blogga mörgum árum á undan mér.

2:38 f.h., desember 28, 2008  
Blogger oakleyses said...

jordan shoes, tory burch outlet online, louis vuitton outlet online, ray ban sunglasses, louis vuitton, louis vuitton handbags, christian louboutin shoes, cheap oakley sunglasses, true religion outlet, michael kors outlet online, oakley sunglasses, michael kors outlet online, burberry outlet online, ray ban outlet, tiffany jewelry, louis vuitton outlet, longchamp outlet, red bottom shoes, coach outlet, kate spade outlet online, kate spade outlet, longchamp handbags, michael kors handbags, michael kors outlet online, burberry outlet online, louis vuitton outlet, polo ralph lauren, michael kors outlet, gucci handbags, longchamp outlet online, nike outlet, true religion, coach outlet, nike air max, coach outlet store online, tiffany and co jewelry, chanel handbags, nike free, christian louboutin outlet, michael kors outlet store, polo ralph lauren outlet, nike air max, christian louboutin, coach purses, prada handbags, oakley vault, prada outlet

4:07 f.h., desember 01, 2014  
Blogger oakleyses said...

pandora charms, moncler, toms outlet, timberland shoes, ray ban, hollister clothing, swarovski uk, canada goose, montre femme, ralph lauren, converse shoes, ugg, moncler, supra shoes, pandora uk, hollister, links of london uk, swarovski jewelry, uggs canada, baseball bats, gucci, lancel, canada goose, pandora jewelry, wedding dress, juicy couture outlet, moncler, hollister canada, thomas sabo uk, canada goose, iphone 6 case, coach outlet, replica watches, oakley, canada goose pas cher, parajumpers outlet, louboutin, moncler, moncler outlet, air max, karen millen, converse, vans, moncler, moncler outlet, louis vuitton canada, juicy couture outlet, nike air max

4:18 f.h., desember 01, 2014  

Skrifa ummæli

<< Home