sunnudagur, júní 20, 2004

Skáldsögur Pauls Auster eru hlaðnar makalausum tilviljunum sem öðlast merkingu og dulúð.Hann hefur stundum verið gagnrýndur fyrir þetta, sakaður um skort á raunsæi, en slíkri gagnrýni hefur hann svarað harkalega og talið hana bera vitni um þröngsýni og dapurt ímyndunarafl. Hér að neðan er nokkurn veginn sönn örsaga um kennara sem ég hafði árið 1973. Ég velti því dálítið fyrir mér hvers vegna mér hafði komið þessi kennari skyndilega í hug þarna um daginn eftir að hafa ekki hugsað um hann árum saman, kannski áratugum. En hvað haldið þið? Ég skrapp inn á Kaffi Roma í dag til að ná mér í latte í pappamál til að taka með mér. Og þarna sat hann, einn við borð. Hafði nýlokið við sætabrauð og drakk kaffi og fletti blaði eða tímariti. Ég velti því fyrir mér hvort ég hefði misreiknað hann eitthvað, því léttúð á borð við kaffihúsaferðir passa ekki við hann eins og hann kom mér fyrir sjónir árið 1973. Kannski hafði hann bara þokast í frjálsræðisátt, í sömu átt og tíðarandinn en þó nokkrum áratugum á eftir honum. Og hafði hann bætt á sig? A.m.k. fannst mér hann frekar hraustlegur. En andlitið var jafn holdskarpt og áður og fingurnir örmjóir. En hafði hann samt fitnað? Fötin hans voru ákaflega tímalaus, hann var í köflóttum jakka, hvítri skyrtu og með rautt bindi. En svo sá ég að hann var í þykkri, hnepptri prjónapeysu undir jakkanum. Ef ég væri í svona peysu undir herrajakka myndi ég líta út eins og risablaðra eða loftbelgur. - Hann horfði undrandi á mig enda var ég búinn að grannskoða hann, og ég leit undan. Ef hann bara vissi að ég væri búinn að skrifa um hann bloggsögu!

Hvað eru mörg ár síðan ég hef séð þennan mann?
Merkingarlaus tilviljun eða óráðanlegt dulúðarspil tilverunnar?
Hef ég kannski bara ekki veitt honum athygli?

Annars var þetta svo góður dagur að ég velti því fyrir mér hvort ég verðskuldi alla þessa hamingju. Líklega ekki. Við fórum upp í Hallgrímskirkjuturn og horfðum á borgina eins og hún væri líkan úr Lególandi. Skoðuðum okkur um í höggmyndagarðinum við Freyjugötu. Heima fór ég í fótbolta úti í garði með Freyju en Erla lá í sólbaði úti á svölum. Ég steikti ofan í okkur hamborgara, gekk frá og þreif í eldhúsinu og fékk síðan leyfi til að fara upp í vinnu (þar sem ég er núna) og freista þess að ljúka við lenginguna á Sektarskiptum. Í bland við hangs og netflakksrugl tókst mér að klára verulegan hluta af viðbótinni í nótt enda fór ég ekki að sofa fyrr en um þrjúleytið. Svaf síðan til ellefu í morgun og ætti því að endast við skriftir langt fram á nótt.