Ef marka má reglulega umfjöllun vandaðra blaða og tímarita um heimilisofbeldi mætti ætla að það væri aðeins af tvennum toga: líkamlegt ofbeldi eiginmanna gagnvart eiginkonum sínum og kynferðislegt ofbeldi feðra, stjúpfeðra, bræðra og ættingja gagnvart stúlkubörnum. Undanfarin misseri hafa vakið athygli mína ýmis óskyld dæmi um líkamlegt ofbeldi mæðra gegn börnum sínum. Ég velti því fyrir mér hvort um sé að ræða tilviljanir eða toppinn á einhverjum ísjaka sem ekki fær litið dagsins ljós í umræðunni.
Fyrir tveimur árum kyrkti móðir 9 ára gamla dóttur sína í Breiðholti. Síðastliðið vor myrti móðir í Vesturbænum dóttur sína í svefni og lagði til sonar síns með sama hnífi.
Fyrir nokkrum misserum las ég sannsögulega bók, Undir köldu tungli, sem lýsir skelfilegu og skefjalausu ofbeldi móður gagnvart dóttur sinni árum saman. Frægar eru jafnframt sjálfsævisögur Dave Pelzers um sama efni. Í bandarískum sjónvarpsþáttum sem fjalla um sannsöguleg sakamál eru morð mæðra á börnum sínum reglulegt umfjöllunarefni og raunar eru slíkar fréttir almennt nokkuð tíðar.
Ég veit að þetta er hvorki fagleg né vísindaleg upptalning. Ég velti því samt fyrir mér hvort stór hluti af heimilisofbeldi liggi í þagnargildi. Þegar ég ræði þessar óljósu vangaveltur mínar við konur er það viðkvæði algengt að umrædd dæmi séu undantekningartilvik og almennt séu karlar margfalt ofbeldisfyllri en konur. En auðvitað er þetta vitleysa. Ofbeldi á sér stað í fjölskyldum sem eru laskaðar á einhvern hátt og samskipti óheilbrigð. Þar tel ég að sá líkamlega sterkari beiti hinn veikari ofbeldi og kyn gerenda sé aukaatriði. M.ö.o.: ofbeldi er þegar sá sterkari neytir aflsmunar gagnvart hinum minnimáttar. Oftast eru karlar sterkari en konur og konur sterkari en börn.
Í stórum vinahópi mínum fyrirfinnst ekki alkóhólismi, framhjáhald né skilnaðir og almennt virðist fjölskyldulíf í þessum hópi gæfuríkt. Þegar ég leiði hugann að þessum vinum mínum á ég afar erfitt með að sjá að karlarnir í hópnum sé á nokkurn hátt ofbeldisfyllri eða líklegri til að beita ofbeldi. Þetta er einfaldlega hópur karla og kvenna sem ekki eru ofbeldisfull.
Skiljiði hvað ég er að fara? Fyrir nokkrum áratugum lá umræða um kynferðisofbeldi gagnvart börnum í þagnargildi og það var eins og það væri ekki til. Nú vita allir betur.
Skyldi það sama gilda um annars konar ofbeldi, t.d. ofbeldi mæðra gegn börnum? Er ekki mikilvægt að beina athyglinni að öllum fórnarlömbum heimilisofeldis og hífa umræðuna upp úr femínískum farvegi?
Konuhvarfið í Stórholtinu og gæsluvarðhald yfir ofbeldisfullum sambýlismanni og væntanlega morðingja konunnar hefur vakið upp á ný umræðuna um heimilisofbeldi, þ.e. umræðu á hefðbundnum nótum, um ofbeldi karla gegn konum. - Ofannefnd barnsmorð mæðranna tveggja hafa hins vegar ekki kallað fram neina umræðu af slíku tagi.
Þessi málflutningur minn snýst ekki um það að vera á móti konum. Mér finnst bara að í umræðu um ofbeldi megi engin saklaus fórnarlömb gleymast, ekki heldur börnin sem eru svo ólánsöm að eiga brjálaðar mæður. Síst af öllu mega þau gleymast vegna villuhugmynda um algæsku kvenna að feminískrar hugmyndafræði.
Og þar sem sumir lesendur mínir eru ekki á nægilega háu plani í rökræðum ætla ég að forðast ad hominem komment með því að taka fram að móðir mín var mér alltaf góð og beitti mig aldrei ofbeldi.
8 Comments:
Ef þú telur ekkert af þessu þrennu: Alkohólisma, framhjáhald og skilnaði, fyrirfinnast í nágrenni við þig þá ertu hugsanlega óvenju blindur eða ungur að árum(þetta á þá bara allt eftir að koma). Þótt allt virðist í góðu lagi hjá fólki er ekki þar með sagt að það sé það. Fólk ber alla jafna ekki ofdrykkju og framhjáhald sitt og sinna nánustu á torg.
Þórdís.
Sæl og þökk fyrir innleggið. Ég þekki raunar til alkóhólisma og skilnaða og hefði kannski mátt orða þetta betur og nákvæmar. Það er hins vegar tiltekinn, nokkuð stór hópur fjölskyldufólks sem tengist konunni minni sem ég er þarna að vísa í. Á hverju sumri hittist allur þessi hópur yfir helgi, við erum raunar að hittast um næstu helgi, og hefur gert það í 10 ár. Ég hef því þekkt fólkið lengi. Og hvort sem þú trúir því eða ekki þá er þessi hópur nánast allur laus við þau vandamál sem kennd eru við svokallaðar dysfunctional fjölskyldur. Það hefur enginn skilið og enginn átt við umrædd vandamál að stríða - Í ÞESSUM HÓPI. - Og nú endurtek ég það sem ég sagði í pistlinum: Í þessum hópi er ekki nokkur leið að greina það að karlarnir séu ofbeldisfyllri eða aggressívari en konurnar. Einn þeirra getur að vísu verið nokkuð aggressívur á prenti en að öðru leyti erum við samansafn af óttalegum rolum. - Í dysfunctional fjölskyldum tel ég ekki óalgengt að karlar berji konur sínar og að konur (ekki endilega sömu konurnar) leggi hendur á börnin sín. Umræðan um heimilisofbeldi snýst hins vegar eingöngu um ofbeldi karla gegn konum vegna þess að þessi umræða virðist vera partur af pólitískri baráttu feminista. En í raun og veru eru börn sem verða fyrir ofbeldi mæðra miklu varnarlausari fórnarlömb. - Inn í þessa umræðu varst þú ekkert að tengja þig áðan og spurning hvort það standi til?
Ég hugsa að það sé alveg rétt að konur eru líka gerendur heimilisofbeldis og það er mikilvægt að draga það fram í dagsljósið. En ég held að þetta sé ennþá falið vegna þess að þegar konur beita líkamlegu ofbeldi verður yfirleitt minni skaði af því að þær eru ekki jafn sterkar og ég held að karlar séu hræddir við að leita sér hjálpar (og kannski er hún ekki jafn aðgengileg og fyrir konur) því það er ekki karlmannlegt "að láta" konuna berja sig.
Þakka innleggið. Ég hef ekki hugsað út í líkamlegt ofbeldi kvenna gagnvart körlum, eflaust er það til, það sem mér er hins vegar efst í huga er ofbeldi gagnvart börnum, já eflaust af hendi karla en líka af hendi kvenna. Konur gagnvart börnum, þar er maður kominn með álíka eða meiri styrkleikamun og milli karla og kvenna. Hvers vegna er ekkert fjallað um þetta? Hvar eru þessi börn? Eru þjáningar þeirra faldar? Eru þau kannski þrátt fyrir allt fá. Ég held varla.
Eflaust eru karlar algengari gerendur í heimilisofbeldi en konur. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort væn sneið af heimilisofbeldi kunni að vera ofbeldi mæðra gegn börnum. Og það er látið eins og það sé ekki til.
Komið þið sæl.
Þetta er þörf umræða. Þetta hefur verið svo lítið rætt og rannsakað að það er nánast ekkert til af staðreyndum um málið. Alla vega ekki á Íslandi.
Þetta endurspeglast í þessari umræðu hér:
Þú Audur skrifar: “Þá held ég að það sé algengara að karlmenn stundi slíkt.” Og “Persónulega held ég að það séu fleiri karlmenn sem fremja slík ódæði. Þeir hafa bæði meira afl og svo geta þeir líka beytt andlegu ofbeldi. Auðvitað gera konur þetta líka, því miður.”
“..... svo geta þeir líka beitt andlegu ofbeldi.”
Áttu virkilega við að karlmenn séu snjallari í beitingu andlegs ofbeldis en konur? Ef svo er, hvað hefurðu fyrir þér í því?
Karlar hafa meiri líkamsstyrk en konur eins og þú bendir á og getað notað þann eiginleika bæði til góðs og ills.
Ég held að konur séu mun sterkari á tilfinningasviðinu og geti líka beitt því bæði til góðs og ills.
Þú skrifar Ágúst að “Eflaust eru karlar algengari gerendur í heimilisofbeldi en konur.”
Það er kannski ekki svo eflaust sem margir ætla. Mér hefur ekki tekist að ná í neina statistik yfir þetta fyrir Ísland en í þeim erlendu rannsóknum sem ég hef séð eru konur í miklum meirihluta gerenda hvað varðar ofbeldi og illa meðferð á börnum.
Þetta þarf þó ekki að vera nein vísbending um að konur séu verr innrættar en karlmennirnir heldur speglar trúlega það að konur hafa miklu meira með börn að gera en þeir.
Sæl aftur
Rakst á þetta hér á síðu stofnunarinnar:
Prevent Child Abuse Wisconsin | 211 S. Paterson St., Suite 250 | Madison, WI 53703:
"Child Abuse Perpetrators
There is no ''typical'' child abuser.
May be male or female -Data from 21 states indicate that 61.8% of perpetrators were female.
Mothers acting alone were most often identified as perpetrators of neglect and physical abuse."
Hér sjáum við svart á hvítu að konur eru nær tveir þriðju hlutar gerenda.
I have some small garden of herbs at home, i use them for baking foods and as herbal medicines. pacificcharterservices.
Skrifa ummæli
<< Home