fimmtudagur, júlí 08, 2004

Erla er í göngu úti á landi fram á mánudag og Freyja er líka í sveitinni. Ég er því einn heima með Kjartan. Var að rísla í skrifborðsskápnum í gærkvöld og komst að því að ég á heilar 9 klámspólur. Ég hélt að þær væru bara þrjár eða fjórar. En þetta hefur safnast upp á nokkrum árum. Djöfulsins öfuguggi! Látið hirða manninn!

Talandi um það. DV skýrir frá því í dag að Fannar körfuboltamaður sé saklaus af ákærum um kynferðislega áreitni. Maður vissi það allan tímann, það skein í gegnum upphaflegu fréttirnar um ákæruna á hendur honum fyrir nokkrum mánuðum. En virðingarvert að slá þessu upp líka. DV gerir margt ágætlega burtséð frá pistli mínum í gær. Fréttir af mannshvarfinu eru ítarlegri og betri þar en í öðrum blöðum og samt ekki verið að fara með fleipur. En blaðið er við sama heygarðshornið í pólitíkinni. Illugi þarf heila síðu í dag í reiðilestur um Davíð. Held það hafi reyndar ekkert með Baug að gera, bara skoðanir Illuga sjálfs.

Ég fór með leiðrétt handritið í vinnuna í gær, ætlaði að færa inn leiðréttingarnar og steypa sögunum saman í eitt skjal. En þá brá svo við að það varð allt í einu allt vitlaust að gera í prófarkalestri og textagerð. Kemst kannski í þetta í dag. Held að ef ég geng svona frá þessu þá geti ég frekar slegið striki yfir bókina í huganum og byrjað á nýju verki. Mínir sveittu félagar vilja ekki sjá þetta strax, eru á kafi í að setja upp viðameiri bækur.