þriðjudagur, júlí 20, 2004

Í gær tók ég að láni á Borgarbókasafninu Winesburg, Ohio, eftir Sherwood Anderson. Bók sem ég hef lengi ætlað að lesa, eitthvert frægasta smásagnasafn sögunnar, kom fyrst út árið 1919. Bókin vekur upp spurningar um muninn á smásagnasafni og skáldsögu. Allar sögur bókarinnar gerast nefnilega í sama bænum, þ.e. Winesburg, og fremst í bókinni er m.a.s. kort af bænum. Anderson var mistækur höfundur og skáldsögur hans þóttu meingallaðar. Sérgrein hans var að draga upp myndir af örlagaríkum augnablikum í lífi persóna sinna, augnablikum þegar þær sjá líf sitt í nýju ljósi, hann var hins vegar sagður eiga erfitt með að fylgja persónum lengi eftir og ná utan um tímasviðið í skáldsögu. Anderson starfaði mestalla ævi við að skrifa auglýsingastexta. Hmmm ...

Rúnar Helgi hefur lokið yfirlestri á smásagnahandritinu mínu. Eftir hans dóm er ekki ólíklegt að ég felli eina eða tvær sögur úr safninu. Ræði betur við hann á miðvikudagskvöld.