föstudagur, ágúst 27, 2004

Ég hef nokkuð drjúgan tíma á morgnana og upp úr 9 í morgun lá ég með blöðin inni í rúmi. Ekki hefur borið á mjög hatrammri stjórnarandstöðu hjá Fréttablaðinu undanfarið og það verður bara að segjast eins og er að þeim dögum fjölgar sem mér finnst blaðið betra en Mogginn, eiginlega miklu betra. Mogginn er betri í sporti og Lesbókin er afbragð út af fyrir sig, en í almennu efni finnst mér Fréttablaðið vera orðið töluvert líflegra. Og þegar jafn íhaldssamur maður og ég læt svona frá mér, þá er eitthvað mikið að hjá Mogganum. Nýjungarnar finnst mér drepleiðinlegar, t.d. Tímaritið. Sunnudagsblaðið uppfullt af pólitískum rétttrúnaði og leiðindum, þunglyndissjúklingum og jafnréttis- og nýbúaráðstefnum Evrópsku fjölmenningar og jafnréttisskrifstofunnar.

Ég las dálítið á milli línanna í morgun. T.d. það að Biggi í Maus er bráðánægður með að njóta íslenskrar frægðar en vera laus við heimsfrægð, svo ánægður að hann montar sig af því undir rós. Íslenska frægðin kemur fram í því að honum er hleypt framfyrir í biðröðum skemmtistaða. Þetta hafði mér ekki komið í hug. Fyrir mér hafa Mausararnir alltaf verið horaðir strákar í of litlum lopapeysum, og vinna í bókabúðum eða við blaðamennsku og þræla sér svo út í bílskúrnum á nóttunni. Það er óneitanlega gleðilegt að þeir njóti einhverra forréttinda.

Síðan var afmælisviðtal við Sveinbjörn I. Baldvinsson. Ég efast um að honum sé hleypt framfyrir í biðröð en ég er líka handviss um að hann lætur aldrei bjóða sér það að taka sér stöðu fyrir aftan nokkra biðröð að skemmtistað, ekki frekar en meistari smásögunnar. Sveinbjörn er í hópi meirihluta höfunda sem hafa ekki náð inn að þeirri miðju að vera á starfslaunum og pródúsera reglulega skáldsögur sem gefnar eru út af stóru forlögunum og seljast í yfir 1000 eintökum. Hann hefur orðið útundan í þeim skilningi, eins og flestir blekberar. En þvílíkur dugnaður og útsjónarsemi! Í stað þess að lifa af Launasjóðnum skrifar maðurinn handrit að dönskum sjónvarpsþáttum, t.d. Forsvar og Taxi! Bolurinn myndi álíta slíkt vera draumastarf en lesa má á milli línanna að Sveinbjörn myndi frekar vilja skrifa skáldverk á bók. Hann segir að ólaunuð verkefni bíði í skúffunni, t.d. drög að skáldsögum. Minn draumur sem lesanda (já nú kem ég engum á óvart) væri sá að Sveinbjörn einbeitti sér að smásögum þegar hann getur veitt sér þann lúxus að taka sér frí frá dönsku þáttagerðinni. Margir muna eftir hinni frábæru sögu hans, Icemaster, frá 1986, en hann hefur skrifað margar fleiri og er þegar best lætur með bestu smásagnahöfundum þjóðarinnar. Í bókinni Stórir brúnir vængir sem AB gaf út 1989, að ég held, eru fjandi góðar smásögur eftir Sveinbjörn og síðan ein góð í Listahátíðarbókinni frá árinu 2000, Stefnumót heitir bókin en ég man ekki hvað sagan hans heitir. - Það væri virkilega gaman ef Sveinbjörn eyddi meiri tíma í smásagnagerð og ef eitthvert forlag myndi síðan gefa út sögurnar; altént væri einn kaupandi í sjónmáli.