föstudagur, september 24, 2004

Ansi var strákurinn þeirra flottur, fríður, stóískur og greindarlegur. Reyndar hefur hann ekki langt að sækja greindina, Richard Brautigan hefði orðað það svo að foreldrar hans væru svo skarpir að þeir gætu farið í lautarferð á rakvélablaði (Picnic on a razorblade), svo maður grípi til súrrealismans sem ég hef alltaf verið dálítið hrifinn af án þess að stunda hann nokkurn tíma eða eiga það nokkurn tíma eftir. Erla gekk lengi lengi með drenginn um gólf og þegar móðirin spurði hvort hún vildi nú ekki fara að losna við hann þá var það nú ekki aldeilis. Ég varð dálítið áhyggjufullur en Erla róaði mig og sagði að sín ákvörðun um væri orðin endanleg: hún myndi ekki eignast þriðja barnið. Sjúkkit.

Er að garfa í sögu hægt og rólega og er jafnframt eins og vanalega að lesa haug af smásögum. Stundum finnst mér eins og ég sé vél sem mallar hægt og örugglega án þess að hiksta, vél sem gengur fyrir lesnum smásögum og framleiðir frumsamdar smásögur, 3-5 á ári, hægt og örugglega.