föstudagur, september 17, 2004

Nú fer aftur að sjást einhver þjóðmálaumræða í sjónvarpi. Silfur Egils byrjar um helgina og framundan er nýr pólitískur þáttur á Skjá einum. Í þeim þætti er lagt upp með að stjórnendur séu ekki hlutlausir og er teflt saman stjórnendum sem eru á öndverðum meiði. Annars vegar eru það Illugi Gunnarsson (hægri) og Katrín Jakobsdóttir (vinstri). Ég hef ekki mikið séð til Illuga í opinberri umræðu og í fljótu bragði séð gæti hann farið halloka fyrir Katrínu sem er lífleg og fjölmiðlavæn en Illugi frekar stirður. Ég segi þetta þó með fyrirvara, Illugi er kannski nokkuð óskrifað blað í sjónvarpi þrátt fyrir að hafa verið aðstoðarmaður forsætisráðherra í nokkur ár.

Enn meira gæti þó hallað á annan aðilann í síðara parinu: Ólafur Teitur Guðnason (hægri) og Guðmundur Steingrímsson (vinstri). Þar sé ég nú ekkert annað fyrir mér en slátrun. Ólafur Teitur er alveg gríðarlega rökfastur, harðskeyttur en málefnanlegur og setur sig af krafti inn í mál, er með allar upplýsingar á hreinu. Laufléttur og meinlaus húmor Guðmundar má sín þarna lítils, ég sé hann hreinlega ekki eiga breik í Ólaf Teit. Ekki nema Guðmundur komi á óvart og sýni á sér nýjar hliðar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home