þriðjudagur, apríl 26, 2005

Sönn kímnisaga

Í hádeginu á föstudaginn mætti ég Páli Þorsteinssyni (þekktur útvarpsmaður á 9. áratugnum) í Þingholtunum með heyrnartæki í eyrum og iPod í hendi. Aðspurður sagðist hann vera að hlusta á Led Zeppelin til að hita sig upp fyrir Robert Plant tónleikana. Hann kvaddi mig í sæluvímu nostalgíunnar en þá rifjaðist upp fyrir mér gömul og vandræðaleg missýn sem henti mig fyrir nokkrum árum. Þannig er að við Páll Þorsteinsson unnum beint og óbeint saman hér áður fyrr, þ.e. störf okkar tengdust á ýmsan hátt og kölluðu á samskipti. Um tíma átti það samstarf sér stað á gamla DV-svæðinu. Líklega var það snemma árs 2001 sem ég átti eitthvað vantalað við hann en hafði ekki hitt á hann lengi. Ég stóð fyrir utan Mál og menningu á Laugaveginum þegar hann ók framhjá mér á jeppa og kallaði eitthvað út um gluggann. Ég hljóp að jeppanum og sagði eitthvað á þessa leið: "Ég er búinn að vera að hugsa svo mikið til þín, má ég ekki koma upp í bílinn." Hann opnaði fyrir mér. Þegar ég var sestur í farþegasætið rann upp fyrir mér að þetta var ekki Páll Þorsteinsson heldur Halldór Guðmundsson þáverandi forstjóri Eddu. Hinn eini sanni. Þetta var ákaflega vandræðalegt. Við vorum að vísu málkunnugir en ekki meira svo að byði upp á meira en eitt kurteisisvink úti á götu. Og nú sat ég í forstjórajeppanum hans erindislaus. - Þannig var að ég keypti mér fyrst gleraugu síðla árs 2002 en hafði verið nærsýnn í mörg ár á undan. Alltaf trassaði ég gleraugnakaupin og í þetta skipti kom trassaskapurinn mér í koll. Mér tókst að útskýra missýnina fyrir Halldóri sem gerði gott úr þessu og ók með mig nokkra hringi um Mál og menningarhúsið á meðan við töluðum um ástandið í bókaútgáfunni. - Það sem hann hafði kallað á mig út um gluggann var eitthvert hrós eða þakkir fyrir grein sem ég hafði stuttu áður birt um Kjell Askildsen á visir.is - þar sem ég starfaði um þetta leyti.

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Bíddu, í hverju var húmorin fólginn? Þjáningu Halldórs?

11:58 f.h., apríl 27, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Úff þetta byrjar meira að segja eins og hryllingssaga: "Þeir atburðir sem hér greinir frá eru sannir hversu ótrúlegir sem þeir kunna að virðast." Úff, tíu hringir um Mál og menningu með ÁBS... það er ekkert grín...
- Steini

1:53 e.h., apríl 27, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Þessi er reyndar ansi góður. Ég lennti í svipuðu með Halldór. Ég þurfti að ná í hann út af handriti sem þeir ætluðu að gefa út og hann hafði engann áhuga eða tíma til að tala við mig næstu vikuna vegna anna. Ég hringdi samt og kynnti mig og fékk samstundis samband við úgáfustjórann sem var óvenju glaður að heyra í mér og boðaði mig niður í forlag samdægurs. Þegar ég kom niðreftir var hann hálf hissa að sjá mig þar sem hann hafði átt von á einhverjum öðrum Kristjóni, sem var víst góður vinur hans. Við áttum samt ágætis samtal.
kkg

6:49 e.h., apríl 27, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Mér finnst þetta eiginlega ennþá óþægilegri aðstaða. Ég gat þó sjálfum mér um kennt á sínum tíma.

7:02 e.h., apríl 27, 2005  
Blogger oakleyses said...

birkin bag, ferragamo shoes, ugg, reebok shoes, asics shoes, insanity workout, hollister, giuseppe zanotti, chi flat iron, soccer jerseys, herve leger, jimmy choo shoes, uggs outlet, new balance outlet, replica watches, lululemon outlet, nike huarache, north face jackets, ugg boots, p90x workout, longchamp, canada goose outlet, uggs on sale, abercrombie and fitch, beats headphones, wedding dresses, vans outlet, valentino shoes, mac cosmetics, canada goose outlet, canada goose, uggs outlet, celine handbags, soccer shoes, nike roshe, mcm handbags, marc jacobs outlet, bottega veneta, mont blanc pens, ugg outlet, canada goose outlet, nfl jerseys, ugg soldes, babyliss pro, ghd, nike trainers, north face outlet, ugg boots, instyler ionic styler

2:11 f.h., nóvember 29, 2014  

Skrifa ummæli

<< Home