fimmtudagur, júní 09, 2005

Meira af frægu fólki og nú nafngreint

Friðrik Erlingsson hefur látið af störfum á Íslensku auglýsingastofunni. Mér skilst að hann hafi mörg járn í eldinum og e-ð af því á sviði ritlistar. Erpur Eyvindarson hefur hins vegar hafið störf á sama stað (en engan veginn í sama starfi og Friðrik). Sá piltur býður af sér góðan þokka. Ég hitti hann í dag þegar ég var nýkominn úr upptökunni uppi í Efstaleiti og bar pistlana og Spegilinn á góma. Erpur virðist ekki halda vatni yfir mótpistlahöfundi mínum: "Já, hann er alveg frááábær." Mér vafðist tunga um tönn: "ehemm, hm, já ... ööö ... ágætur."

Skrapp niður í Eymundsson undir kvöldið og mætti þar Elísabetu Ólafsdóttur, sem var að afgreiða. Ég heilsaði henni og hún tók hálfundrandi undir kveðjuna. Ég held hún hafi ekki haft hugmynd um hver þetta var. Hins vegar vissi ég ekki betur en hún væri byrjuð að vinna á auglýsingastofu og hef m.a.s. hlustað á skemmtilegar útvarpsauglýsingar eftir hana. Hvernig er það, er unga fólkið að vinna sér til óbóta í góðærinu?