Mér finnast bóksalaverðlaunin frekar asnaleg. Þau eru einstaklega fyrirsjáanleg, renna til þeirra bóka sem mest eru umtalaðar. Þarna gerist aldrei neitt óvænt. Ég efast ekki um að starfsfólk bókaverslana les mikið en ég á bágt með að trúa að 3ja eða 5 manna setjist niður í miðri jólaösinni og vegi og meti bækur sem allir meðlimir hafa lesið.
Auk þess er þetta hálfvafasamt, bóksalarnir eru segja við almenning: við viljum frekar að þið kaupið þessar bækur en þessar þarna í búðinni okkar. Bóksalar eru að selja vörur í umboði útgefanda. Þeir eiga ekkert með að hampa sumum vörum á kostnað annarra. Að sjálfsögðu er eðlilegt að mikið auglýstum og vinsælum bókum sé stillt fram með áberandi hætti í búðunum en óþarfi er að starfsfólkið sjálft sé að hafa áhrif á það fyrirfram hvaða bækur lenda í þeim flokki.
Ef í heiminum væri bara til bókmenntaáhugafólk sem fylgir straumnum þá myndi aldrei neitt nýtt og óvænt uppgötvast. Sumar þýddar metsölubækur voru áður handrit sem enginn kærði sig um að gefa út, höfundarnir nafnlaus andlit í mannhafinu. Hefðu íslensku bóksalarnir kunnað að meta þessi verk áður en þau rötuðu á markaðstorgið?
20 Comments:
Mæltu heilastur ÁBS! Ef bifvélavirkjar myndu velja bíl ársins yrði það varla sá sem aldrei bilaði er það? Gleðileg jól meistari meistaranna ...
Er ekki eðlilegra að líkja bóksölum við bílasala fremur en bifvélavirkja? - Og hvert er vitið í því að líkja saman bílum og bókum? Snýst þetta bara um bækur sem bila og bækur sem bila ekki?
Nei. Bílasalar vita oftast um hvað þeir eru að tala. Samt kannski ekki góð líking hjá anonymous. Bóksalar eru fisksalar sem halda að þeir séu sjómenn eða sjómenn sem halda að þeir séu fiskar eða fiskar sem halda að þeir séu .... Bottom line: Bóksalar eiga að selja fólki þær bækur sem fólkið vill kaupa og halda sálinni í sjálfum sér út af fyrir sig.
Er ekki annars magnað hvernig hugur fólks hneigist ákveðið í átt til bóka sem ekkert gerist í þegar tilnefningar til verðlauna ber á góma? Snobb og leiðindi hafa lengi átt samleið ....
Þessi pistill kallar á nýja verðlaunasamkeppni. Að þeirri bók sem enginn veit af og enginn nennir að tala um verði veitt sérstök verðlaun sem leyndarmál ársins. Að vísu kallar titillinn e.t.v. á umtal og þar með erum við aftur komin á byrjunarreit. Kannski nauðsynlegt að svipta viðkomandi bók titlinum og reyna að grafa upp aðra nýja. Þannig má stöðugt vekja athygli á bókum sem enginn vill tala um og enginn vill af vita.
Ekki sé ég nokkur rök fyrir því að bóksalar megi ekki verðlauna bækur, rétt eins og allir aðrir. Það er alls konar fólk úti um allan bæ, misgáfað, misvel lesið, misvelmeinandi m.a.s., sem veitir verðlaun fyrir allan fjárann. Bóksalar lifa þó og hrærast 40 stundir á viku innan um bækur.
Ertu að tala um einhverjar tilteknar bækur? Er Sendiherrann umtalaðasta bók bókaflóðsins? Sú mest auglýsta og plöggaða?
Það hefði með öðrum orðum ekkert komið þér á óvart að fá þessi verðlaun? Eða hvað? - Verðlaun Braga eru mjög fyrirsjáanleg enda skáldsögur hans mjög umtalaðar. Þær verðskulda allar verðlaun á borð við þessi enda frábærar. En málið er að í hverri einustu verðlaunaútnefningu þessarra verðlauna, í hverjum einasta flokki, hvert einasta ár, hefur alltaf verið fleyttur rjóminn af því vinsælasta, fyrirsjáanlegasta og umtalaðasta. Ég á erfitt með að sjá sölufólkið sitja á rökstólum í miðri jólaösinni og vega og meta allt sem er í boði. Ef Sendiherra Braga hefði verið gefin út undir nafni Viðars Þorsteinssonar hjá bókaútgáfunni Nýhil - þá hefði hún aldrei fengið þessi verðlaun.
Hrutur arsins,hundur arsins,ljoska arsins,tittlingur arsins, kona arsins,madur arsins,framhjahald arsins,frettamadur arsins,ljodabok arsins,fjall arsins,thingmadur arsins,knattspyrnumadur arsins,gedsjuklingur arsins,hreingerningarkona arsins,gjorningur arsins,bloggari arsins,blottari arsins....
Eg by enntha a Blonduos....enginn hefur tilnefnd mig...
Já, Ágúst, það er rétt. En það á við um öll verðlaun sem veitt eru fyrir útgefin verk eða undir réttu nafni. Bóksalaverðlaunin eru sem slík ekkert ómerkilegri en önnur. Þeir bóksalar sem ég þekki leggja sig mjög fram um að lesa bókaflóðið, enda er þetta jafnan metnaðarfullt fólk sem vill geta aðstoðað viðskiptavini sína eftir fremsta megni.
Þetta má líka vel vera rétt. En mjög líklegt er að hin metnaðarfulla og alúðlega aðstoð treysti fyrirsjáleikann í sessi.
Er ekki jaðarskáldið Eiríkur Örn komið í mótsögn við sjálft sig? Ætti hann ekki að vera talsmaður hins nýja og nýstárlega frekar en að púkka undir hæpið í kringum metsölubækurnar? Ég ekki skilja. Svo viðurkennir hann að Sendiherrann hefði aldrei fengið verðlaunin ef Nýhil hefði gefið hana út. Er heil brú í þessu? Eru það ærlegir bóksalar sem kaupa bara „merkjavöru“? Er þetta aðstoð eftir fremsta megni?
Verðlaun skipta engu fyrir jaðarinn. Í öllu falli engin verðlaun sem veitt eru hér á landi, og engin sem ég veit af annars staðar. Miðjan má alveg eiga sín verðlaun.
Svo er ég nú mismikill jaðar, eftir hentugleikum.
Þá finnst mér rétt að benda á að í Blaðinu í dag kemur fram að ég hafi fengið a.m.k. eina tilnefningu. Hún kom mér ekki á óvart.
Það er óhjákvæmilegt að fleiri lesi það sem er umtalað og að vinsældir þess hlaði utan á sig. Þannig virkar þetta bara. Það er jafn langt frá því að selja 500 eintök í að selja 1.000 eintök og það er frá því að selja 1.000 í að selja 5.000. Svona vindur upp á sig. Þannig er jú vissulega líklegt að bóksalarnir hafi lagt sig meira fram um að lesa það sem er í umræðunni, er vinsælt, og þannig bækur verði líklegri til vinsælda fyrir vikið.
Það sem pirrar mig mest í þessari umræðu er ekki að hún sé ekki að nokkru leyti sönn, heldur hitt að bóksalar séu dregnir einir til ábyrgðar fyrir að vera hluti af miklu stærri veruleika. Hvers vegna var ekki fárast yfir tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna? Þau verðlaun setja sig á miklu hærri stall en þau eiga skilið og hafa margföld áhrif á við bóksalaverðlaunin.
Ég veit fátt betra en góðan bóksala, og mér sárnar fyrir þeirra hönd að gert sé lítið úr þeim. ÁBS er kannski haldinn einhverri meinloku gagnvart þeim? Ég man ekki betur en bókmenntaþætti Þorsteins Joð hafi á sínum tíma helst verið fundið það til foráttu að þar var bóksala boðið að tjá sig um bókmenntir eins og hann hefði til þess einhvern rétt!
Jú, þetta er farið að liggja nokkuð ljóst fyrir. Hann krissrokk kaus bókina hans Eiríks og krissrokk er rosalega fínn. Þar að auki lenti ég í stælum við krissrokk í fyrra eða hittifyrra út af óskaplega yfirborðslegum og leiðinlegum bókmenntaþætti sem hann kom fram í. Engin furða þó að EÖN sé búinn að fá nóg af framkomu minni í garð vinar hans, bóksalans krissrokks. Ég má ekki gagnrýna þessi verðlaun þrátt fyrir augljós og æpandi einkenni þeirra, þá er ég að gera lítið úr bóksölunum. Er ég þó í allt frá spjallsambandi upp í vinfengi við ýmislegt af þessu ágæta fólki og hef aldrei haft á tilfinningunni að það sé móðgað við mig né því finnist að ég eigi að halda kjafti um allt sem viðkemur bóksölu og bókabúðum.
Svaraðu mér þessu einu: Á hvaða máta á gagnrýni þín við bóksalaverðlaunin en ekki önnur bókmenntaverðlaun, á borð við Íslensku bókmenntaverðlaunin?
Þetta er svipuð tilhneiging og með Íslensku bókmenntaverðlaunin en þó ennþá afdráttarlausari. Þar hafa þó gerst óvæntir hlutir eins og tilnefning Bjarna Bjarnasonar og auk þess hafa Íslensku bókmenntaverðlaunin lyft Jóni Kalmann upp á stall, höfundi sem var ekki þekktari en ég og þú fyrir örfáum árum.
Var hann ekki hættur sem bóksali?
Kristján Freyr er verslunarstjóri hjá Eymundsson, ef mér skjöplast ekki.
Punkturinn sem ég vildi koma með kemur kannski ekki bara bóksölum við. Ég væri alveg jafn hlynntur bókaverðlaunum bókavarða, já eða bara bifvélavirkja og dagmæðra (sérílagi ef um sameiginleg verðlaun bifvélavirkja og dagmæðra væri að ræða).
Verðlaun eru ekki gildur mælikvarði á gæði bóka. Það hafa þau aldrei verið og á að mínu mati jafnt við um þau öll. Það er sama tóbakið undir þessu öllu. Bókmenntastofnunin er jafnvel íhaldsamari en almenningur, ef eitthvað er. Verðlaun eru hins vegar skemmtileg, sérstaklega fyrir þá sem þau fá, og þess vegna fagna ég þeim. Ekki vegna þess að þau séu marktæk sem mælikvarði á gæði bóka. Enda gæði bóka ekki mælanleg.
Þetta er ágætismálflutningur hjá þér Eiríkur. Gleðileg jól. - Ég á eftir 60 blaðsíður af bókinni þinni. Klára hana milli jóla og nýárs.
Lafleur-verðlaunin verða í öllu falli ekki veitt í ár (samkvæmt þeim heimildum sem ég hef) en þið fylgist þá spenntir með að ári, ekki satt.
pandora charms, moncler, toms outlet, timberland shoes, ray ban, hollister clothing, swarovski uk, canada goose, montre femme, ralph lauren, converse shoes, ugg, moncler, supra shoes, pandora uk, hollister, links of london uk, swarovski jewelry, uggs canada, baseball bats, gucci, lancel, canada goose, pandora jewelry, wedding dress, juicy couture outlet, moncler, hollister canada, thomas sabo uk, canada goose, iphone 6 case, coach outlet, replica watches, oakley, canada goose pas cher, parajumpers outlet, louboutin, moncler, moncler outlet, air max, karen millen, converse, vans, moncler, moncler outlet, louis vuitton canada, juicy couture outlet, nike air max
Skrifa ummæli
<< Home