fimmtudagur, júlí 22, 2004

Hitti Rúnar Helga í gærkvöld, hann skilaði mér sögunum með athugasemdum. Helsta vandamálið er sagan Tvö hádegishlé, henni þarf annaðhvort að breyta eða kippa út úr handritinu. Rúnar Helgi hafði orð á því að sögurnar mínar væru orðnar margsungnari og flóknari en áður. Hann virtist allhrifinn og hafði lagt sig eftir því að lesa sumar sögurnar mörgum sinnum sem við það urðu sífellt betri. Hann sagðist ekki hafa fattað eina almennilega fyrr en við fjórða lestur. Það var nú aldrei meiningin að verða ofurdjúpur höfundur og því miður sé ég nú ekki fyrir mér gagnýnendur lesa bókina svona vel í haust.

Við þvældumst aðeins um bæinn og í Eymyndsson heilsaði Rúnar Helgi upp á einn nemanda sinn, hina eldhressu ljóshærðu afgreiðslustúlku sem kennd er við Rokk. Þá rann enn og aftur upp fyrir mér hvað það getur verið vandræðalegt í litlu landi að standa í einhverju leiðindakarpi við fólk á netinu, fólk sem maður hefur í rauninni ekkert á móti. En allt saman byrjaði þetta með bókmenntalegum deilum og síðan hafði maður ekki stjórn á atburðarásinni. En höfundar taka óneitanlega bókmenntir persónulega og því stundum erfitt að greina milli persóna og bóka. - En ætli við getum svo sem ekki lifað við þetta.

Ég á nú enn nokkra vinnu eftir við að ljúka handritinu og tek t.d. kvöldið í kvöld í þetta verk.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home