mánudagur, september 27, 2004

Í gær fór ég í haustlitagöngu með fjölskyldunni til Þingvalla. Rétt fyrir heimferðina ámálgaði ég við Erlu þá hugmynd að við myndum borða úti, því við ætluðum að skokka snemma um kvöldið og gott væri að þurfa ekki að standa í neinu eldhússtússi áður. Vanalega tekur Erla hugmyndum af þessu tagi frekar fálega en þá glumdi í bílútvarpinu auglýsing frá KFC um tilboð á 10 kjúklingabitum, pepsi og frönskum kartöflum. Við tókum tilboðinu. Ég er lítið fyrir gos en þeim mun meira fyrir kaffi. Ég vildi því fá kaffi með matnum. Strákurinn sem afgreiddi sagði það þyrfti að hella upp á það og sagðist gera það. Þegar við höfðum lokið snæðingi fór ég fram og spurði eftir kaffinu en þá var það ekki búið að renna niður. Ég freistaði þess að fá koffínskammtinn minn (ég hafði ekki drukkið kaffi síðan um morguninn) rétt áður en við fórum, en þá fékk ég þau skilaboð frá stráknum að það væri svo mikið að gera að hann hefði engan tíma fyrir kaffistúss. Og ég áttaði mig á því að ég hafði engar forsendur til að þrasa út af þessu því staður eins og KFC er ekki veitingastaður í eiginlegum skilningi heldur einhver djúpsteikt tilboðsbúlla. Þegar maður tekur svona tilboðum eins og þessu þá breytist maður nefnilega í skríl og samþykkir að það sé ekki komið fram við mann eins og viðskiptavin. Maður fær mat á lágu verði á ákveðnum forsendum og næg er spurnin eftir svona tilboðum. Í leiðinni afsalar maður sér í raun öllum venjulegum kröfum veitingagestsins. Sá sem hefur einhverja sjálfsvirðingu á ekki að borða á svona búllum. Ég þarf ekki fínan stað til að upplifa mig vel við veitingaborð. Ég þarf bara stað þar sem ég fæ það sem ég panta með brosi á vör þess sem þjónar mér. Og þá finnst mér þess virði að borga dálítið meira.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home