laugardagur, september 25, 2004

Já, smásagnavélin mallar í haustrokinu. Ég sit við tölvuna með opið wordskjal. Skrapp út til að kaupa mér Moggann áðan, fletti Lesbókinu og einhverju fleiru, það var svo sem enginn glaðningur um sjálfan mig í blaðinu eins og síðast enda dugir sá skammtur í nokkrar vikur. Ég er kominn með Dave Brubeck í eyrun en það er álíka auðvelt að hlusta á hann eins og hverja aðra popptónlist, og er að garfa í sögu, eins og áður segir. Það vill reyndar svo til að ég er með tvær söguhugmyndir í smíðum núna, hvað sem verður um þær síðar: önnur er smásaga en hin getur eiginlega ekki verið annað en í það minnsta stutt skáldsaga. Þegar ég set saman smásagnasöfn sker ég stundum burtu of mikil líkindi milli persóna og atburða svo sögurnar verði ekki of líkar. Ég ætla að leyfa þessum tveimur sögum, ef ég endist við þær, að skella saman hvað snertir persónur og samskipti þeirra og þá er hugsanlegt að styttri sagan leggi fyrir mig grunninn að þeirri lengri með því að draga upp fyrir mig persónurnar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home