Það var bara ekkert hægt að blogga í gær, ekki hægt að komast inn á síðuna. En meðan ég man: Til hamingju með Laxness-verðlaunin, Gerður Kristný.
Bókin mín er í 6. sæti skáldsagnalistans sem birtur verður í fjölmiðlum um helgina. Það hlýtur að vera lítil sala á bak við þetta sæti á þessum árstíma en engu að síður kemur þetta mér mjög á óvart. Ég veit að töluverður hópur fjöldi vina og kunningja kaupir bókina en efast stórlega um að það sé í þessum tölum, því þeir eru rétt að fara af stað núna. Bókað er að hún verður ofarlega á lista í næstu viku og nær þá líklega á aðallista. Framhaldið er síðan undir hælinn lagt.
Óskar Árni sendi mér nýjustu bókina sína í pósti. Þar er að finna þennan texta:
Skóstærð 46
Ég man ekki til þess að hafa séð foreldra mína en
þau sáu mig. Ég var gefinn suður fjórtán vikna
gamall. Það var búið um mig í skókassa nr. 46 og
honum komið á frænku mína sem ætlaði með
áætlunarbílnum til Reykjavíkur. Engum sögum fer
af þessu ferðalagi en hún afhenti kassann ungum
hjónum á Bjargarstígnum og þar ólst ég upp. Kass-
inn var lengi notaður undir jólaskraut. Stundum
þegar ég kem inn í skóbúð og finn leðurlyktina og
heyri skrjáfið í pappírnum finnst mér ég skynja
þetta löngu liðna kvöld; ég heyri skröltið í rútunni,
það er myrkur og fyrir augunum dansa litlir fingur.
_____________________________________________
Þetta er ekki amalegur texti. En hvað um það. Kæru blogglesendur, smásagnasafnið Tvisvar á ævinni er á sértilboði í Pennanum Eymundsson og Máli og menningu fram á þriðjudag: 2.600 kr.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home