mánudagur, október 18, 2004

Þegar ég hnýtti í Gísla Martein þáttinn um daginn fyrir að vera með enn eitt viðtalið við Bubba Morthens, þá varð ég auðvitað dálítið smeykur um að gagnrýnin gæti túlkast sem illgirni og öfundsýki. Sem hún var auðvitað ekki. Tilefni viðtalsins var raunar heimildarmynd góðkunningja míns, Ólafs Jóhannessonar, hjá Poppola, en Ólafur er einn helsti aðdáandi bókarinnar Sumarið 1970, hefur "keypt" að henni kvikmyndaréttinn og líklega mun einhvers konar kvikmyndaútgáfa af Hverfa út í heiminn líta dagsins ljós áður en ég dey. - En hvað um það, eflaust er heimildarmyndin góð en samt finnst mér ofaukið að gera heimildarmynd um Bubba. Hann hefur einfaldlega verið svo fyrirferðarmikill.

Á ég að fara að koma mér að efninu? Í DV í dag er viðtal við fyrirverandi eiginkonu Bubba. Konunni er greinilega vel til eiginmannsins fyrrverandi og viðtalið er laust við alla beiskju. En hún þekkir sinn mann og er gagnrýnin á hann. Hún segir í rauninni miklu betur en ég það sem ég vildi segja í blogginu um daginn. Hún er t.d. kominn með leiða á þessum endalausu dópsögum hans. Henni finnst hann ekki standa undir því hlutverki móralíserandans sem hann er sífellt að leika, enda auglýsir hann núna grimmt lúxusjeppa en þóttist vera baráttumaður fyrir réttindum farandverkamanna áður fyrr. Og svo er hann reglulega að blaðra um Biblíuna á Omega. Hún segir að hann Bubbi kallinn blaðri bara einfaldlega of mikið og það endi með því að enginn taki mark á honum lengur. Málið er það að maður þarf ekki að vera alvitur og algóður til að vera verðugur listamaður og mér finnst líka að Bubbi ætti að einbeita sér að listinni og draga úr blaðrinu. Endalaus meint samúð hans með lítilmagnanum er hjákátleg í ljósi þess að sem vini velur hann sér alltaf einhverja ríkisbubba og talar helst ekki við annað fólk. Enda má hann það alveg. Hann má alveg elska jeppa og dýrka ríkt og frægt fólk og líta niður á pöpulinn. Það er allt í lagi. Það er bara þetta yfirþyrmandi, hræsnisfulla og mótsagnakennda og háværa blaður hans sem hvergi er friður fyrir vilji maður á annað borð fylgjast með fjölmiðlum.

Bubbi er frekar ungur maður ennþá og þó að rokkarar brenni fljótt út þá er hann á miklu víðara sviði. Hann gæti því átt sín allra bestu ár eftir sem listamaður. Hann þarf hins vegar að draga úr yfirlýsingunum því annars missir hann trúverðugleika. Geturðu ekki, Bubbi minn, bara hætt þessu helvítis blaðri, eins og fyrrverandi eiginkona þín er að ráðleggja þér, og lagt allan kraftinn í listina; tónlist, texta og kannski bækur, hver veit? Þú verður örugglega ekki í vandræðum með að kynna og selja afurðirnar, þú þarft ekki að vera í hverjum einasta sjónvarpsþætti til þess og segja dópsögur af þér, móralísera og blaðra um Biblíuna. Listin þín verður eiginlega miklu meira spennandi ef þú dregur þig dálítið í hlé og beinir allri athyglinni að hugverkunum sjálfum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home