mánudagur, október 18, 2004

Aldrei grunaði mig að frjálshyggjumaðurinn ég yrði nokkurn tíma fylgjandi kynjakvótum í stjórnunarstörfum og á framboðslistum stjórnmálaflokka. En nú liggur við að ég geti greitt slíkum lausnum atkvæði mitt. Ég viðurkenni að hafa orðið fyrir áhrifum tveggja manna vegna málflutnings þeirra um þetta efni, Hallgríms Helgasonar og Ingva Hrafns Jónssonar. Ég er oftar en ekki sammála Ingva Hrafni en Hallgrímur er ekkert átorítet fyrir mig í stjórnmálum enda virtist mér hann um daginn vera kominn með þær undarlegu hugmyndir að Lúðvík Bergvinsson væri efni í framtíðarleiðtoga þjóðarinnar. Með fullri virðingu fyrir þeim þingmanni þótti mér það dálítið frumlegt. - En staðreyndin er sú að launamisrétti milli kynjanna er viðvarandi hér á landi og skortur á konum í háum stórnunarstöðum, jafnt hjá hinu opinbera sem á frjálsum markaði, er sláandi og pínlegur. Hallgrímur sagði í Silfri Egils að fyrir ári síðan hefði honum ekki dottið í hug að styðja kynjakvóta en núna velti hann því fyrir sér hvort nokkur lausn önnur væri til að breyta ástandinu. Og það er einmitt stóra spurningin. Er nokkur önnur lausn til? Og er sú lausn ekki betri en að sætta sig endalaust við þetta ástand?

Ingvi Hrafn lagði til á Útvarpi Sögu að stórfyrirtæki fengju ekki skráningu í Kauphöllinni án þess að uppfylla skilyrði um lágmarkshlutfall kvenna í stjórnunarstöðum.

Staðreyndirnar eru þær að hvað eftir annað eru tækifæri til að ráða hæfar konur til hárra stjórnunarstaða hjá hinu opinbera látin ónotuð og alltaf þykjast menn hafa einhverjar faglegar ástæður til að sniðganga konurnar. Á vinnustöðum ríkir oft klíkuskapur þar sem strákarnir drekka saman og klappa hver öðrum og inn í þær klíkur eiga konur ekki möguleika á að brjótast. Auðvitað er ekki hægt að skipa litlu heildsölufyrirtæki að ráða konu sem framkvæmdastjóra en hið opinbera verður að sýna betra fordæmi. Þegnarnir þurfa að þola ýmis valdboð og afskiptasemi hins opinbera og mér virðist að lögfastara jafnrétti væri ekki meiri frelsisfórn en margt annað.

En hvernig var það, er ég ekki karlremba? Ég veit það ekki. Ég hef verið sakaður um það vegna þess að ég gagnrýni oft harðlega málflutning feminista þegar mér finnst hann vera óraunsær, snúast um tittlingaskít, ýta undir ritskoðun, steypa allt fólk í sama mót. Ef það er að vera karlremba, þá það. En ef ég er karlremba þá er ég líka feministi. Vonandi fjölgar feministum af báðum kynjum og vonandi beinist málflutningur þeirra umfram allt að ofangreindum málum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home