sunnudagur, febrúar 13, 2005

Djöfull get ég alltaf verið heppinn. Heppni dauðans myndu gelgjur á öllum aldri kalla það. (Við erum búnir að fíflast svo mikið með þetta "dauðans", nokkrir miðaldra karlpungar í vinnunni og um daginn sagði einn okkar þegar hann kvaddi, fimmtugur hönnuður: "Jæja, ég er farinn dauðans"). Heppnin er sú að það verður ekkert úr Hornstrandagöngunni en þess í stað förum við til Krítar. - Á laugardaginn fórum við í kynningarpartí með gönguhópnum en Erla hefur gengið með þessu fólki þrjú undanfarin sumur. Ég gerði mér upp mikinn áhuga en allir sáu í gegnum það, bæði fólkið og Erla. Þetta er reyndar svolítið beggja blands, göngur eru farnar að toga í mig, t.d. sólarhringsferðalag eða dagslöng ganga. Og gaman væri að kanna óbyggðir landsins og eiga leið um gömul eyðibýli. En vikulöng ganga án sturtu og Hressó? Og fólkið, fólkið var fínt, miklu skemmtilegra en ég. En samt: Gestgjafarnir spiluðu Greifana og Stuðmenn, ég hafði á tilfinningunni að enginn myndi horfa á Silfur Egils daginn eftir og bókasafnið samanstóð af nokkrum standördum: Laxness, Ólafur Jóhann og Arnaldur. Engir hrokafullir sérvitringar eða bókagrúskarar og að ég held ekki einn KR-ingur á svæðinu fyrir utan mig. Með þessu fólki átti ég í vændum að eyða viku í óbyggðum. "Ágætt", hugsaði ég með mér og hamaðist við að sannfæra sjálfan mig. Ég sá reyndar líka fram á að ég yrði mesti klaufinn í ferðinni, t.d. við að pakka niður og elda við frumstæðar aðstæður, myndi lenda í vandræðum í klifri, o.s.frv. Eina sem ég hafði ekki áhyggjur af var þrekið, sem er þokkalegt og ég get hæglega eflt enda hef ég gaman af að synda og skokka.

Í dag kom síðan í ljós að það stefnir þrátt fyrir allt í stórfjölskylduferð hjá Erlu til sólarlanda. Börnin ljómuðu þegar við bárum upp hugmyndina við þau en þeim hafði verið tjáð að þau færu ekkert til útlanda í sumar. En núna erum við búin að panta ferðina: Svo í stað Hornstrandagöngu kemur tveggja vikna dvöl á Krít. Krítaferðin tekur yfir gönguvikuna og Erla valdi frekar Krít, án nokkurs þrýstings.

Heppinn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home