sunnudagur, ágúst 21, 2005

Enn eru úrslitin í Reykjavíkurmaraþoni ekki komin svo ég veit ekki hvorum megin við 60 mínúturnar ég endaði, en það var örugglega tæpt. Erla fór þetta líklega á 56-57 mínútum. Það rættist mjög úr veðri á meðan hlaupinu stóð og satt að segja fundum við okkur bæði nokkuð vel, sérstaklega Erla. ´

Allt í allt er ég afskaplega sáttur við sjálfan mig eftir hlaupið og sé fyrir mér haustmánuðina sem blöndu af skokki, sundi og hjólreiðum - kjúklingi, eggjum, ávöxtum, grænmeti, harðfiski og soðnum fiski. Ég verð kominn í hörkuform áður en langt um líður.

Ég er að lesa smásagnasafn eftir William Trevor og var að taka að láni á safninu þrjár nóvellur eftir Andre Dubus heitinn. Eina þeirra hafði ég lesið áður. Bókin heitir We Don´t Live Here Anymore. Hún hefur nýlega verið kvikmynduð, mikið hjónabandsdrama sem ég held að hafi verið frumsýnt í fyrra en ég veit ekki hvort myndin er komin hingað til lands, fylgist svo illa með bíóunum.

Einnig tók ég bókina Rigning í nóvember eftir Auði Ólafsdóttur.