miðvikudagur, apríl 29, 2009

Að afsala sér heiðri vegna þingmennsku

Ég ætlaði ekki að blogga um heiðurslaun Þráins Bertelssonar vegna þess að mér þykir sú umræða ósmekkleg, vildi ekki kynda undir henni og átti von á að hún lognaðist fljótt út af.

En það furðulega hefur gerst að þetta hefur verið eitt helsta umfjöllunarefni fjölmiðla undanfarið.

Að afsala sér heiðurslaunum vegna annarra starfa er áþekkt því og að afsala sér Nóbelsverðlaununum. Síðari heiðurinn er að sönnu ennþá meiri en annars er eini munurinn sá að Nóbelsverðlaunin eru greidd út öll í einu en heiðurslaunin mánaðarlega í litlum skömmtum.

Heiðurslaun listamanna eru allt annað fyrirbæri en starfslaun. Fyrir utan að vera töluvert hærri þá eru starfslaun veitt til ákveðinna verkefna. Ég fékk t.d. þriggja mánaða starfslaun sem samkvæmt umsókn minni eiga að duga til að fara langt með að ljúka skáldsögu. Sex mánuðir áttu að duga til að klára hana alveg. Ef ég ætla að eiga mér von um að fá aftur starfslaun þarf ég að vera búinn með svo mikið af bókinni í haust að aðeins sé eftir sirka þriggja mánaða vinna við hana.

Heiðurslaun fá nokkrir listamenn komnir fram yfir miðjan aldur fyrir fórnfúst ævistarf. Þau eru svo lág að þau eru engan veginn hugsað sem eina framfærsla listamannanna.

Fjölmörg dæmi eru um að listamenn á heiðurslaunum sinni öðrum störfum.

Fjölmörg dæmi eru um að þingmaður vinni aukavinnu.

Þráinn Bertelsson hefur verið mjög virkur rithöfundur undanfarin ár og fátt bendir til að hann hætti að skrifa þó að hann setjist á þing. Ritstörf verða væntanlega aukavinnan hans.

Fyrir utan að það skiptir ekki máli. Hann er búinn að vinna fyrir þessum launum. Þetta eru verðlaun. Núna vill fólk svipta hann verðlaununum í nafni misskilinnar og ofsafenginnar siðbótar, allt vegna þess að þjóðin vaknaði upp við bankahrun og áttaði sig á að margir þegnar hennar hafa verið siðspilltir í fjármálum undanfarin ár.

Um leið er reynt að sverta þann heiður listamannsins sem hann hefur áunnið sér fyrir löngu.

Mér finnst þetta til skammar.

17 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Fjölmörg dæmi eru um að fólk hafi mun lægri upphæð en heiðurslaunin sér til framfærslu og ekkert annað en se samt krafið um skatta sem m.a. renna til að greiða heiðurslaun.

6:11 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Hans Haraldsson said...

Auðvitað er hann fórnarlamb ómerkilegs æsingapopúlisma í þessu máli.

Robespierre endaði víst líka undir fallöxinni.

6:28 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er hárrétt hjá þér Ágúst.
Mér svíður sá ósómu þegar menn einsog Eiður Guðna gagnrýna heiðurslaun Þráins. Var hann ekki á eftirlaunafrumvarps-launum jafnframt því að vera pólitískt skipaður sendiherra (með öllum þeim skattlausu fríðindum sem því fylgja.

Naflausum skal bennt á að bera sig frekar saman við bankastjóra eða sendiherra, leggja saman vinnutíma og framlegð til samfélagsins og reikna svo út launin sem viðmiðun af því.
Menn einsog Þráinn hafa gert okkur verkamönnunum lífið bærilegra því 'hver er tilgangur drauma í helvíti ef ekki sá möguleiki að geta dreymt himnaríkið sjálft.' Tvö óréttlæti strika hvort annað ekki út og það að lægstlaunuðu þurfi að borga undir pakkið sem veðsetti okkur án leyfis er eitt af því sem kjósendur FLokksins verða að hafa á samvisku sinni fram í næsta líf.
Kannski menn ættu að huga að því hversvegna Matías Jó er alltaf á heiðurslaunum, eru þessi ljóð hans sem birtast í Mogganum (sem hann ritstýrði) svona merkilegur pappír?
Ég biðst afsökunar á því að hafa nefnt þessa menn í sömu færslu og Þráinn, þeir hafa ekkért sameiginlegt með þeim ágæta manni og eru af allt öðru sauðahúsi.

Steinn, Brussel

6:37 e.h., apríl 29, 2009  
Blogger bjarkigud said...

Gæti ekki verið meira sammála þér Ágúst. Þessi umræða er lágkúruleg og minnir frekar á einelti en umræðu siðmenntaðra einstaklinga.

6:46 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Nafnlaus said...

"Ágæta manni"?? Hann sakaði Geir H. Haarde um að vera að búa sér til samúð þegar hann tilkynnti um veikindi sín! Þráinn er allt annað en ágætur maður og á ekkert erindi inn á þing.

6:49 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Nafnlaus said...

Ætlar Borgarahreyfngin virkilega að nota sömu rök fyrir því að Þráinn geti verið á tvöföldum launum og hún notaði í málflutningi sínum gegn spillingu? Réttlætir það að sumir þingmenn séu á tvöföldum laun að Þráinn sé á tvöföldum launum? Þetta veit ekki á gott. Þráinn þarf ekki að afsala sér laununum sem Framsóknarflokkurinn útvegaði honum á sínum tíma. Hann getur t.d. látið þau renna til Öryrkjabandalagsins á meðan hann er á þingi. Ég hélt að Borgarahreyfingin væri stofnuð til höfuðs ójöfnuði og spillingu.

7:37 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Evreka said...

Þú talar um fordæmi (að vísu ætlaði Borgarahreyfingin ekki að fara eftir fordæmum, en látum það samt liggja á milli hluta í bili). Eru þá til fordæmi fyrir þessu:

- Að Alþingi samþykki í fjárlögum reglubundnar launagreiðslur, aðrar en þingfararkaup og ráðherralaun, til eins þingmanns. Getur þingmaðurinn þá tekið þátt í að afgreiða slík fjárlög? Getur hann átt sæti í menntamálanefnd, sem gerir tillögu um þessar fjárveitingar?

Mér vitanlega er ekkert fordæmi fyrir þessu. Og augljóslega yrði þingmaðurinn að segja sig frá þessum ákvörðunum og ýmsum fleiri, sem gerir störf hans takmarkaðri og tortryggilegri. Er það þess virði? Er það eðlilegt?

Þorgerður Katrín fékk á sig talsverða gagnrýni fyrir nokkrum árum þegar flokkur hennar stóð fyrir því að hækka heiðurslaun listamanna, úr 125 í 150 þúsund á mánuði. Ástæðan: jú, hún var talin vanhæf vegna þess að faðir hennar þiggur þessi heiðurslaun.

Er þingmaðurinn Þráinn sem sagt ekki vanhæfur til að taka þátt í þessu?

Athugum það, að heiðurslaun listamanna eru afgreidd frá Alþingi árlega og eru þannig lögð til samþykktar fyrir alla þingmenn. Hingað til hafa þingmenn ekki verið að skammta öðrum þingmönnum sambærilegar greiðslur. Viljum við virkilega stíga það skref? Vill Borgarahreyfingin brjóta blað í þessa átt? - einhvern veginn átti ég von á því að hún vildi brjóta blað í hina áttina...

8:26 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Evreka said...

Steinn í Brussel reynir að verja Þráinn en er í raun að færa rök gegn því að Þráinn geti haldið þessum heiðurslaunum með góðu móti.

Hann líkir þessu við eftirlaunaósómann. Það er einmitt málið! Þar var ranglæti og bakland Borgarahreyfingarinnar gerði einmitt atlögu gegn því ranglæti. Ætlar þingmaður Borgarahreyfingarinnar virkilega að taka þátt í samskonar ranglæti? Það eru auðvitað ekkert annað en svik við hans bakland og kjósendur.

Svo fellur Steinn í sömu gryfju og flestir aðrir, sem reyna að réttlæta sjálftöku Þráins; að líkja þessu við Matta Jó eða einhverja aðra, sem þegið hafa heiðurslaun á sama tíma og þeir hafa verið á öðrum launum.

Halló! - Matti Jo vann hjá einkafyrirtæki! Það er engan veginn sambærilegt. Vilji menn þá bera Þráin saman við Gunnar Eyjólfsson eða einhverja aðra á launum hjá ríkinu, þá er einnig sá grundvallarmunur, að þeir eru ekki þingmenn. Einsog ég nefndi í fyrri færslu, þá eru þetta laun sem ÞINGIÐ veitir og því með öllu ótækt að einn þingmaður ætli að taka við þessum launum.

Samlíking við hefðbundin listamannalaun á ekki einu sinni við, því þar eru jú úthlutunarnefndir og stjórnir að störfum. Heiðurslaunin eru veitt af ALÞINGI, sem sagt, ALÞINGISMENN eru ábyrgir fyrir valinu.

Þráinn er einn þeirra. Líka hinir þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar. Það verður tekið eftir því hvort þeir greiða atkvæði með þessu við afgreiðslu næstu fjárlaga.

8:36 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Nafnlaus said...

Heiður er bara ekkert tengdur peningum. Þráinn hefði sennilega uppskorið enn meiri heiður hjá almenningi ef hann hefði afþakkað þessar peningagreiðslur. Eftir allan hans málatilbúning og tuð stendur lítið eftir nema peningarnir og nú sjá allir úr hverju maðurinn er gerður.

10:45 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Nafnlaus said...

Samkvæmt þessu er hægt að verðleggja heiður, ég hélt alltaf að heiður væri eitthvað sem væri ómetanlegt til fjár, en samkvæmt þinni grein kostar heiður þráinns 150000 kr á mánuði.

10:48 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Nafnlaus said...

Þessi umræða er ótrúleg lágkúra hjá Sjálfstæðismönnum. Þessar hártoganir ykkar um það afhverju menn sem þið haldið með megi þiggja aukalaun en ekki maðurinn sem þið eruð á móti eru umhugsanarverðar. Hver er eiginlega tilgangur ykkar með því að vera í þessum ómerkilegu hártogunum um þetta smámál?

Fyrir utan að Þráinn, sem er góður í kjaftinum, gæti jarðað ykkur með snjöllum skrifum um þetta mál síðar. Það er ekki erfitt að hæðast að ykkur í þessu máli og láta ykkur líta mjög illa út.

11:15 e.h., apríl 29, 2009  
Blogger Sturla said...

Heiðurslaun eru ekkert annað en elítu-bruðl sem gjaldþrota þjóð getur alveg verið án. Nær væri að nota þessa peninga í heilbrigðisgeirann.

11:32 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Hildur said...

Mér líst vel á tillögu Birgittu flokkssysturs Þráins um að hann haldi heiðrinum en ánafni einhverjum góðum málstað peningunum á meðan hann situr á þingi.

Maður sem er á þingi fyrir framboð sem fyrst og fremst gefur sig út fyrir að vera á móti spillingu verður að sætta sig við það að til hans séu gerðar ríkari kröfur en til annarra.

11:46 e.h., apríl 29, 2009  
Anonymous Evreka said...

Nafnlaus, kl. 11.15 PM:

Þetta hefur ekkert með Sjálfstæðisflokkinn að gera. Ég hef ekkert með þann flokk að gera og get ekki séð að umræðan um þetta mál komi honum neitt við.

Ég efast ekkert um að Þráinn getur hæðst að sjálfstæðismönnum í sínum pistlum, einsog þú nefnir, enda er það ekki erfitt um þessar mundir. Þeim verður að allt að tjóni og af nógu að taka til að hæðast að þeim.

En það kemur bara þessu máli ekkert við. Það vekur athygli að Þráinn hefur enn ekki getað rökstutt þessa misráðnu ákvörðun sína, að standa fast á þessum heiðurslaunum, þrátt fyrir fjölmörg tækifæri til þess. Það vekur líka athygli að hvorki Ágúst Borgþór né neinn annar sem hefur fært eitthvað hér inn hefur gert hina minnstu tilraun til að rökstyðja þetta.

Enginn hefur reynt að koma með mótrök við því sem ég benti á fyrr í dag. Ég hef bloggað um þetta á fleiri síðum og sama verið uppá teningnum þar, enginn reynir að andmæla þessum rökum.

Segir það ekki allt sem segja þarf...?

1:08 f.h., apríl 30, 2009  
Blogger Andri Valur said...

Mér finnst þetta fyrst og fremst vera prinsipp mál. Mér finnst það siðferðislega rangt að þiggja þetta fé á sama tíma og maðurinn er á fullum launum sem þingmaður.
Borgarahreyfingin boðaði "nýtt Ísland", breytingar og eitthvað álíka. Þetta er það fyrsta sem kemur frá þeirra þingmönnum og hvernig rökstyður Þráinn þetta? Jú hann bendir á hina og segir að einn geri þetta og annar geri hitt. "Þorgerður Katrín tók kúlulán, það er miklu verra!"

1:43 f.h., apríl 30, 2009  
Anonymous Nafnlaus said...

Eins og mælt út úr mínum munni Ágúst.

4:00 e.h., apríl 30, 2009  
Blogger oakleyses said...

jordan shoes, tory burch outlet online, louis vuitton outlet online, ray ban sunglasses, louis vuitton, louis vuitton handbags, christian louboutin shoes, cheap oakley sunglasses, true religion outlet, michael kors outlet online, oakley sunglasses, michael kors outlet online, burberry outlet online, ray ban outlet, tiffany jewelry, louis vuitton outlet, longchamp outlet, red bottom shoes, coach outlet, kate spade outlet online, kate spade outlet, longchamp handbags, michael kors handbags, michael kors outlet online, burberry outlet online, louis vuitton outlet, polo ralph lauren, michael kors outlet, gucci handbags, longchamp outlet online, nike outlet, true religion, coach outlet, nike air max, coach outlet store online, tiffany and co jewelry, chanel handbags, nike free, christian louboutin outlet, michael kors outlet store, polo ralph lauren outlet, nike air max, christian louboutin, coach purses, prada handbags, oakley vault, prada outlet

4:12 f.h., desember 01, 2014  

Skrifa ummæli

<< Home