mánudagur, júlí 05, 2004

Gott þol getur farið einkennilega saman með að öðru leyti slæmu líkamsástandi. Ég fór í fótbolta með unglingum á Flúðum um helgina. Ég er yfir 20 kílóum of þungur, klaufskur, seinn og grófur, en þolið er ennþá nokkuð gott og þess vegna entist ég lengi í boltanum, kannski samanlagt 2 eða 3 tíma. Daginn eftir var ég með svo skelfilegar harðsperrur að ég átti erfitt með að hreyfa mig úr stað. Harðsperrurnar eru enn ekki farnar.

Við tjölduðum eina nótt og það voru mikil mistök. Leikið var á gítara og sungið í þremur hópum á svæðinu fram eftir allri nóttu og umgangur mun meiri en yfir daginn. Svo vaknaði maður eftir einhvers konar blund um morguninn og tjaldið allt blautt. Eftir að taka allt draslið saman og henda inn í bíl. Allur sveittur og skítugur og illa til reika. Engin kaffihús, engin menning, bara gróður, fellihýsi og plebbahjörð. Hryllilegt líf.

Er sem betur fer kominn til borgarinnar aftur en er í hálfgerðu tómarúmi, þ.e. milli bóka.