mánudagur, nóvember 01, 2004

Hvernig var þetta aftur? Þegar ég var ungur áttu skáldverk að vera með einhverjum hætti marxísk, lýsa firringu verkamannsins í kapítalísku samfélagi. - Síðan kom gott tímabil þar sem skáldverk áttu umfram allt að vera vel skrifuð og voru eingöngu dæmd á forsendum listarinnar. En hvað er að gerast núna? Aftur er ég farinn að rekast á það í ritdómum að bækur eru dæmdar úr leik á einhverjum allt öðrum forsendum en fagurfræðilegum, nefnilega þeim að þær virðist ekki hafa til að bera réttar skoðanir. - Um daginn rakst ég á mikinn reiðilestur um skáldsögu vegna samskipta ungrar aðalpersónu hennar við vændiskonu. Jafnframt lýsti ritdómarinn yfir reiði yfir því að bókin hefði verið þýdd fyrir þýðingarstyrk. - Í Lesbók Morgunblaðsins um helgina var skáldsaga Coehlos dæmd ótæk vegna þess að hún lýsti ekki vændi eftir þessari forskrift: Vændi er glæpur þar sem vændiskonan er saklaus en glæpamaðurinn er viðskiptavinurinn. - Geta ekki svona ritdómar bara birst í Veru? Ég eiginlega frábið mér að þurfa að sjá svona lagað í main-stream bókmenntaritum á borð við kistan.is og Lesbókina. Gott og vel, vændi er böl. Flestar vændiskonur eru án efa óhamingjusamar. En í skáldskap þarf ekki hið viðtekna ávallt að ríkja, sannur skáldskapur birtir okkur m.a. þá staðreynd að lífið er óútreiknanlegt í margbreytileika sínum og rétt eins og í lífinu má finna hamingjusama vændiskonu í skáldsögu, því í lífinu og sönnum skáldskap er fólk óendanelga fjölbreytt en ekki allir steyptir í sama mót líkt og í hugarheimi þeirra sem aðhyllast pólitíska nauðhyggju.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home