mánudagur, febrúar 07, 2005

Ég rakst á þessa stílæfingu eftir nafnlausan höfund á rithringur.is - Sá er greinilega eitthvað að lesa bloggsíðurnar:

Við erum stödd á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur. Sjálfhælinn vonnabí smásagnahöfundur (skáld 1) kemur auga á krúttlegt ungskáld (skáld 2) sem situr út undir vegg og hefur dregið þunglyndislegan hattkurf niður undir augu.

Skáld 1: Nei blessaður, ertu búinn að vera lengi í bænum?
Skáld 2: Nei. Og ég þarf bráðum að fara aftur vestur.
S1: Skítt maður.
S2: Já þetta er skítt. Og svo eru þessi bévítans krútt að fara með æskuna til helvítis, öll með tölu. Öll þessi déskotans kynslóð dauðans.
S1: Nei láttu ekki svona maður. Þetta er þó varla verra en þegar ég var ungur maður. Þá fékk maður kókið í pínulitlum flöskum, og glas á hvolfi ofaná. Á sunnudögum fengum við það með lakkrísröri.
S2: Og kemur það málinu eitthvað við? Áttu við að þá hafi verið eitthvað þykkara í því ömurlega skolvatni blóðbrunds kynslóðanna sem við köllum daglegt líf? Að þá hafi verið eitthvað skárra að éta líkþorn úr skel?
S1: Nei, kannski ekki. En heyrðu, annars var ég að heyra gott slúður um daginn.
S2: Nú? Og af hverju ætti mér ekki að vera sama? Slúður er ekkert annað en kjaftæðið sem við notum til að fylla upp í eyðurnar í þessari grámygluðu tilveru, eitthvað sem við notum til að gera gegndarlaust tilgangsleysi lífsins bærilegra.
S1: Nei bara. Ég var að heyra utan að mér að einn þekktasti höfundur þjóðarinnar sé mjög hrifinn af nýju bókinni þinni.
S2 (glaðlegri): Nú, er það? Hver þá?
S1 (með dul í raddblænum): Má ekki segja. En hann er mjög frægur. Kitlar þetta?
S2: Eins og gæsafjöður á siginn pung. En annars var ég reyndar að heyra dálítið svipað.
S1: Nú?
S2: Já. Maður sem ég þekki mjög vel er ánægður með bók sem hann las um daginn.
S1: Er það já! Var það nokkuð bókin mín?
S2: Má ekki segja. Á ég að segja þér fyrsta stafinn?
S1 (lítur á armbandsúrið): Nei æi, ég má ekki vera að því. Ég þarf að drífa mig í vinnuna. Ég þarf að finna eitthvað grípandi slagorð fyrir nýju Mattel-dúkkuna sem er að koma á markað.
S2: Já. Ég þarf líka að fara í bankann og borga nokkra reikninga.
TJALDIÐ