miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Tvær áhugaverðar frá Skruddu












Innlendir skáldsagnahöfundar hjá Skruddu, mínu forlagi, virðast vera tveir á þessari vertíð, Ólafur Haukur Símarsson með bókina Fluga á vegg og Gunnar Gunnarsson með spennusöguna Af mér er það helst að frétta. Ég fékk eintök af báðum bókunum í morgun og er byrjaður að kíkja í þær. Bók Ólafs Hauks er æskusaga hans í skáldsagnaformi þar sem hann blandar saman veruleika og skáldskap eins og við á. Sögusviðið er fyrst og fremst Vesturbærinn í Reykjavíku á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum. Bókin hefur fengið mjög góðar viðtökur það sem af er enda dregin upp lifandi mynd af fortíð og umhverfi sem margir þekkja.

Bók Gunnars segir frá fréttamanni sem ratar í mikil fjárhagsvandræði en fær tækifæri til að koma sér út úr þeim með því að fremja glæp. Þetta virðist vera glæpasaga án hins klisjukennda og þreytandi rannsóknarlögregluteymis, sem margir lesendur þó elska. Gunnar er mjög lipur penni og lúnkinn stíllisti og ég er forvitinn að sjá hvernig honum hefur tekist upp.

Annars er ég farinn að lesa heimspeki af krafti og undirbúa BA-ritgerð sem ég klára líklega skömmu eftir áramót. Skáldsagan mín virðist vera að leysast upp í safn af löngum smásögum. Ég held að kreppan hafi slátrað skáldsagnahugmyndinni. Það verður að minnsta kosti ein hreinræktuð kreppusaga í bókinni en síðan eru nokkrar hjónabands- og ástarsögur úr góðærinu, um vel megandi millistéttarmenn sem þjakaðir eru af pólitískum réttrúnaði sem umlukti líf okkar þegar við þurftum ekki að hafa áhyggjur af fjármálum.

Spennandi tímar framundan hjá mér og líklega ekki erfiðir nema það verður erfitt að upplifa það ástand sem þjóðin er að ganga í gegnum.

Ég er byrjaður að fá lausaverkefni en fleiri eru vel þegin. Þýðingar, textagerð, prófarkalestur, pr-vinna. Skjót og góð vinnubrögð, lágur taxti. Ég þarf að búa til mátulega stóran verkefnapakka meðfram náminu.